«

»

Molar um málfar og miða 1835

 

AÐ SAFNA FYRIR

Í morgunþætti Rásar tvö (11.11.2015) var talað um hið furðulega mál hjúkrunarfræðings, sem ákærður hefur verið manndráp af gáleysi. Þar var sagt að verið væri að safna fyrir henni. Þetta er ekki rétt orðalag. Verið er að safna fé henni til stuðnings. Þegar maður er að safna fyrir einhverju , þá er maður að safna fé til þess að kaupa eða eignast eitthvað.

 

MYGLAÐUR FISKUR?

Í Bakþönkum á baksíðu Fréttablaðsins (11.11.2015) segir höfundur:,,Sneiddi myglubletti af karfaflökum ….”  Myglaður fiskur?

Molaskrifari hefur heyrt um úldinn fisk, jafnvel dragúldinn, en aldrei myglaðan fisk.

 

REFURINN OG KÝRIN

Molalesandi skrifaði (11.10.2015): ,,Ég hef gaman af orðaleikjum, eitthvað, sem ég erfði frá föður mínum.
Í gær datt mer í hug aulabrandari, sem mætti nota til að prófa málþekkingu núlifandi Íslendinga.
“Kári Stefánsson hefur nýlega sannað með DNA að hnífurinn, sem var notaður til að skera refina var sami hnífurinn, sem hafði staðið í kúnni”.
Ætli nokkur undir fimmtugsaldri geta skilið þetta?
Hvað heldur þú?”. Þakka bréfið, en svarið er: Sennilega ekki margir.

 

RÆNULAUSAR ÁSAKANIR

Hvað eru rænulausar ásakanir, sem lögmaður talaði um í fréttum Ríkisútvarps á miðvikudagskvöld (11.11.2015)? Kannski var hann að reyna að segja rakalausar ásakanir, – tilhæfulausar ásakanir, ásakanir úr lausu lofti gripnar. Hver veit? Þetta var margendurtekið í fréttum.

 

OG ÞÚ LÍKA ….

Af mbl.is (11.11.2015): ,,Áslaug bend­ir á að fólki sé heim­ilt að versla áfengi án milli­göngu ÁTVR ef vínsal­inn ber ekki skatta­skyldu á Íslandi”. Þarna er vitnað í nýkjörinn ritara Sjálfstæðisflokksins. Annað hvort skilur sá sem vitnað er í, eða sá sem fréttina, skrifar ekki muninn á sögnunum að kaupa og að versla. Þarna hefði til dæmis mátt segja að fólki væri heimilt að kaupa áfengi án þess að versla við ÁTVR. Maður gerir meiri kröfur til Morgunblaðsins en að það bjóði okkur svona texta. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/11/11/notfaera_ser_dhl_i_stad_tvr/

 

ENDURTEKNAR RANGFÆRSLUR

Í nafnlausum Staksteinum dagsins í Morgunblaðinu (13.11.2015) eru endurteknar rangfærslur Hönnu Birnu Kristjánsdóttur fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins um Ríkisútvarpið, sem hún lét sér um munn um munn fara á Alþingi. Búið var að leiðrétta röng ummæli hennar opinberlega. Það skipti Staksteina engu. Leiðréttingin látin lönd og leið. Vond vinnubrögð.
TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>