«

»

Molar um málfar og miðla 1838

GAMALDAGS EÐA GLEYMT?

Þykir fréttamönnum og dagskrárgerðarmönnum það gamaldags að segja að eitthvað hafi gerst í fyrra , í fyrra vor eða í fyrra sumar? Eða er þetta ágæta orðalag bara að falla í gleymsku? Nú er venjan að segja (eins og í ensku) síðasta ár, síðasta vor, síðasta sumar. Í ágætum þætti í Ríkissjónvarpinu á sunnudagskvöld (15.11.2015)  sagði frá íslenskum vísindamanni, sem lokið hafði doktorsprófi á síðasta ári. Hann lauk prófinu í fyrra. Molaskrifara þykir þessi nýbreytni, sem er að vera ráðandi,  ekki til bóta.

 

ENN UM REKA – REKJA

Nýlega var vikið að því í Molum hvernig menn stundum rugla saman sögnunum að rekja og að reka svo ólíkrar merkingar sem þær nú eru. Í fréttum Bylgjunnar á hádegi (14.11.2015) var enn eitt dæmið um þetta: … geta rekið samskipti geranda og þolanda. Hér átti að segja: … geta rakið …

 

ENN EITT SVIKIÐ

Lesandi benti á þetta í viðtali sem birt var á visir.is (11.11.2015):    ,,Stefgjöld í útvarpi er síðan enn eitt svikið. Þeir sem fá borgað fyrir með stefgjöldum eru bara þeir sem eru spilaðir á Rás 1 og Rás 2”.

Eru síðan enn ein svikin hefði betur staðið þarna. Yfirlestri og gæðaeftirliti ábíota. Eins og svo oft áður. http://www.visir.is/-alls-ekki-hollt-fyrir-18-ara-dreng-ad-vera-hrint-ut-i-thessa-djupu-laug-/article/2015151119812

 

ALLT EINS OG BLÓMSTRIÐ EINA

Í morgunþætti Rásar tvö á degi ,íslenskrar tungu, var rætt við leikara á Akureyri um uppistandsverk, sem þar er nú á fjölunum, ,,Þetta er grín án djóks”.Umsjónarmaður spurði: ,, Og samstarfið gekk ,,Allt eins og blómstrið eina”? Molaskrifari ráðleggur umsjónarmanni að lesa þennan sálm Hallgríms Péturssonar allan, – alveg til enda, – áður en hún vitnar til hans með þessum hætti. Samstarfið hafði gengið einstaklega vel !  Sami umsjónarmaður sagði verkið hafa fengið ógeðslega góða dóma, fólk væri froðufellandi yfir þessu! Orðið ógeðslegt notar þessi dagskrárgerðarmaður um flest sem er gott , frábært eða til fyrirmyndar. Ekki er það til fyrirmyndar. Eftir að hafa hlýtt á þetta færði skrifari sig yfir á aðra útvarpsrás, – Rondó, – eins og svo oft áður. Þar er ekki bullið, – bara fjölbreytt tónlist. (http://www.ruv.is/sarpurinn/ras-2/morgunutvarpid/20151116 – 01:15.

 

AÐ OG AF

Eilífur ruglingur. Sífellt rugla menn saman og af. Af visir.is (16.11.2015): ,,Rétt fyrir miðnætti sl. föstudagskvöld tókst að koma á vörnum að hálfu Sensa en fjölmargir þjónustuaðilar og vefsíður fundu fyrir árásunum”. Af hálfu Sensa, hefði þetta átt að vera.

 

FRÉTTAMAT

Lengsta og ítarlegasta fréttin í átta fréttum Ríkisútvarpsins á þriðjudagsmorgni (17.11.2015) var um þátttöku Ástrala í Evrópsku söngvakeppninni á næsta ári.

 

FROSTIÐ

Frostið fer ekki upp í tuttugu stig, eins og sagt var í veðurfréttum Ríkissjónvarps í gærkvöldi (17.11.2015). Frostið fer niður í tuttugu stig. Þá er höfð í huga kvikasilfursúlan í mælinum., sem lækkar með lækkandi hita. Molaskrifari tók svona til orða fyrir mörgum áratugum og var leiðréttur! Fékk svolitla ofanígjöf. Hefur gætt sin síðan.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>