«

»

Molar um málfar og miðla 1839

 

ORÐAHNIPPINGAR Á RÁS TVÖ!

Það er nýjung hjá Ríkisútvarpinu að útvarpa rifrildi eða orðahnippingum dagskrárgerðarmanna eins og gert var í lok morgunþáttar Rásar tvö á mánudag (16.11.2015). Þetta má heyra í sarpinum, alveg undir lokin: http://www.ruv.is/sarpurinn/ras-2/morgunutvarpid/20151116

Þetta er úr frétt á vefnum visir.is:

,,Þegar svo kom að því að ræða hvað væri á dagskrá hjá Andra Frey, spurði Guðrún Sóley hvort ætti að breyta eitthvað til, hafa eitthvað skemmtilegt, tók Andri Freyr því óstinnt upp: „Þú ert svo leiðinleg að ég nenni ekki að koma hérna lengur.“ “ (17.11.2015)

Talað er um að taka eitthvað óstinnt upp, taka einhverju illa, fálega, ekki taka einhverju óstinnt upp eins og skrifað er í fréttinni.

http://www.visir.is/andri-freyr-rauk-ut-ur-studioinu-og-skellti-a-eftir-ser/article/2015151118954

 

HREIN SNILLD

Þessi setning er úr frétt á dv.is (16.11.2015, degi íslenskrar tungu):

,, Lík manns sem hefði verið horfinn í nærri áratug fannst nýverið af manni sem var að skreyta jólatré í Michigan-fylki Bandaríkjanna”. Ótrúlegt klúður. Betra hefði verið, til dæmis: Maður sem var að skreyta jólatré í Michigan ríki í Bandaríkjunum, fann nýlega lík manns, sem hvarf fyrir nærri áratug. – Þarna er ekki skýr hugsun að baki og enginn með snefil af máltilfinningu hefur verið á vaktinni.

 

VEÐURFARSAÐSTÆÐUR

Hjó eftir því að í fréttum Ríkisútvarps klukkan 17 00 (18.11.2015) var sagt, að á morgun mætti búast við  svipuðum veðurfarsaðstæðum! Það var verið að segja okkur, að svipað veður yrði á morgun. Málglöggur,fésbókarvinur,  Sigurður G. Tómasson benti einnig á þetta á fésbók. Margir tóku undir.

 

MEÐ BUTTERFLY HNÍF

Úr frétt á mbl.is (13.11.2015): ,,Sam­kvæmt til­kynn­ingu frá lög­regl­unni voru fíkni­efni í spraut­unni og svo var hann með butterfly hníf í vas­an­um. Hinn var með bar­efli falið inn­an klæða”. Í annarri frétt á sama miðli þennan sama dag er talað um fjaðurhníf á mbl. Er þetta kannski sama fyrirbærið? Sá sem skrifaði fyrr nefndu fréttina gerir ráð fyrir að lesendur mbl.s viti hvað butterfly hnífur er.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/11/13/vopnadir_handrukkarar_handteknir/

 

GAMLAR MYNDIR

Það var gaman að sjá gömlu kvikmyndirnar sem brugðið var upp í menningarhluta Kastljóss á þriðjudagskvöld (17.11.2018). Myndirnar hafði Una Margrét Jónsdóttir, útvarpsmaður, fundið í Kvennasögusafninu. Hún kom  þeim til Kvikmyndasafns Íslands til réttrarog viðeigandi varðveislu. Víða leynast merkar heimildir í kössum, kjöllurum og á háaloftum. Kvikmyndasafnið við Hvaleyrarbraut í Hafnarfirði er til fyrirmyndar. Kastljósið mætti að skaðlausu heimsækja það oftar. Þar er æði margt forvitnilegt að finna.  Svolítið var skondið að heyra umsjónarmann tala um myndbönd, þegar átt var við gamlar filmur! Nú heyrir filmunotkun við svona myndatökur sögunni til.

 

Á AÐ MISMUNA BÖRNUM?

Fjárframlög mismuni börnum, segir í fyrirsögn á mbl.is (18.11.2015). Er verið að hvetja  til þess að börnum sé mismunað? Nei. Enn eitt dæmi um ranga notkun viðtengingarháttar. Sennilega hefur þessari fyrirsögn verið breytt. Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/11/18/fjarframlog_mismuni_bornunum/

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Satt og rétt, Hlynur Þór.

  2. Hlynur Þór Magnússon skrifar:

    Hér koma myndbönd við sögu. Allt hefur sinn tíma, líka myndbönd. Fyrir daga þeirra voru filmurnar, eins og þú nefnir. Núna eru myndböndin hins vegar horfin úr daglegri notkun en samt er jafnan í fjölmiðlum talað um myndbönd þegar átt er við myndskeið. Fólk tekur myndskeið en ekki myndbönd á símana sína og önnur tæki.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>