«

»

Molar um málfar og miðla 1840

MÁLFRÆÐI OG LÍFFRÆÐI

Rafn skrifaði (18.11.2015) : ,,Sæll Eiður

Í enskri málfræði fyrirfinnst engin kyngreining, þannig að í því máli fer kyngreining alfarið eftir líffræðikyni. Í íslenzku og fleiri málum er hins vegar skýr munur milli málfræðikyns og líffræðikyns. Þannig eru ráðherrann og kennarinn hann, hvort heldur viðkomandi heitir Jón eða Gunna, nema talað sé um Gunnu ráðherra eða Jónu kennara, því þá verður stöðuheitið ekki lengur frumlag, heldur persónan. Einnig höfum við ótal orð yfir kynverur, þar sem mikill munur er milli málfræðikyns og líffræðikyns. T.d. eru hvorugkynsorðin víf, fljóð og sprund öll notuð um kvenverur. Eins er þetta í þýzku þar sem algengasta orð yfir stúlku er hvorugkynsorðið Mädchen. Sama gildir einnig um karlkynsorð, en sem íslenzk dæmi um þau má nefna svanna yfir konur og kapal yfir hryssur. Nefnifall er að sjálfsögðu svanni og kapall.

Það er því óskiljanlegur sá eltingaleikur „samkynhneigðra“, að apa það eftir enskum málheimi, að samræmi þurfi að vera milli máfræðikyns og líffræðikyns og búa til ný orðskrípi fyrir einstaklinga, sem hvorki vilja flokka sig til karlkyns ellegar kvenkyns né heldur hins málfræðilega hvorugkyns, sbr. meðfylgjandi pistil af vefsíði Vísis.”

Kærar þakkir, Rafn.Sjá eftirfarandi:

http://www.visir.is/vifguma,-unnust,-bur-og-vin-medal-hyryrda/article/2015151118868

 

AÐ SPRENGJA SIG UPP

Molalesandi skrifaði (18.11.2015): ,, Eiður, þekkirðu orðalagið, að „sprengja sig upp“? Má vel vera að sé rétt myndað en ég hef aldrei heyrt þetta áður. Þegar ég var yngri átti ég það til að sprengja mig í hlaupum, jafnvel á síðustu árum í fjallgöngum og má þá til sannsvegar færa, þó aulalegur sé brandarinn, að ég hafi sprengt mig í upp, hafi ég á annað borð ekki snúið við í miðjum hlíðum.

 

Hitt kann að vera að þegar einhver lendir í sprengingu sundrist sá og þeytist jafnvel sumt upp á við. Hann mun þá hafa sprengt sig í loft upp eða bara sprengt sig. Þessi fyrirsögnin hjá mbl.is er því dálítið sérstök: „Sprengdi sig upp í áhlaupinu

 

Held að þegar öllu sé á botninn hvolft sé fyrirsögnin betri svona: Sprengdi sig í áhlaupinu. Að vísu kann hún líka að misskiljast og eiga við einhvern í árásarliðinu ekki þann sem ráðist var á.

Hallist menn frekar að upprunalegri fyrirsögninni verður að spyrja hvort hægt sé að „sprengja sig niður“. “ Kærar þakkir fyrir bréfið, Sigurður. Þetta er fréttin,sem vísað er til:

http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/11/18/sprengdi_sig_upp_i_ahlaupinu/

Þessu til viðbótar má benda á aðra frétt á mbl.is þar sem ekki er unnt að segja að orðalag sé til fyrirmyndar: ,,Þá sprengdi ann­ar maður sig í loft upp. „Vegna þess hvernig lík­ams­leif­um hans er ástatt höf­um við ekki getað borið kennsl á hann.“” og: ,,Lög­regl­an mætti í fyrstu sér­stak­lega styrktri hurð sem tafði fram­gang henn­ar. Þá gerðu spreng­ing­arn­ar það að verk­um að ör­yggi inni í íbúðinni er ekki að fullu tryggt vegna mögu­legs hruns, sem tafið gæti fyr­ir rann­sókn­inni.” . Um þetta er ekki margt að segja. Lögreglan mætti hurð! Sjá: http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/11/18/fundum_heilt_stridsvopnabur/

 

EKKERT VIÐ AÐ BÆTA

Úr samtali við þingmann á mbl.is (18.11.2015) : „Þetta eru nátt­úru­lega bara sömu svör­in og hann hef­ur verið með. Ég hef ekk­ert við það að bæta”. Ég hef engu við að það bæta, hefði verið betra.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/11/18/somu_svorin_og_hann_hefur_verid_med/

Meira af mbl.is sama dag: ,,Rúss­nesk­ir miðlar hafa sagt frá því í dag að sprengj­an sem grandaði rúss­neskri farþegaþotu yfir Sín­aí-skaga í Egyptalandi í októ­ber hafi lík­lega verið komið fyr­ir af egypsk­um flug­vall­ar­starfs­manni”. Sprengjan var ekki komið fyrir. Sprengjunni var komið fyrir. Æ oftar sér maður villur af þessu tagi. Svo er þarna líka óþörf þolmynd, heldur til ama. – … að egypskur flugvallarstarfsmaður hafi líklega komið sprengjunni fyrir, er að sjálfsögðu betra en komið fyrir af flugvallarstarfsmanni.

http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/11/18/kenna_flugvallarstarfsmanni_um/

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>