ENN UM VIÐTENGINGARHÁTT
Molavin skrifaði (22.11.2015): ,,Röng og villandi notkun viðtengingarháttar virðist orðin að reglu á fréttastofu Ríkisútvarpsins, hvað sem veldur. „Tekjuhæstu bæirnir fái mest í sinn hlut“ segir í frétt (21.11.2015) á vef ruv.is. Samkvæmt fréttinni fá bæjarsjóðir hlutdeild í skatti á fjármálafyrirtæki eftir útsvarstekjum. Það er ekki verið að hvetja til þess. Þetta er svona samkvæmt frumvarpi. Eiga fréttastjóri, vakstjóri og málfarsráðunautur ekki aðgang að fréttakerfinu þannig að hægt sé að leiðbeina óvönu fréttafólki áður en fréttir fara í lestur eða á heimasíðu?”
Þakka bréfið Molavin. Þessi óværa veður upp í fjölmiðlum og einskorðast ekki við Ríkisútvarpið. Gæðaeftirlitinu er allsstaðar ábótavant, verkstjórn og leiðbeiningum.
RÍKISÚTVARPIÐ OG AUGLÝSINGAR
Mikið er nú rætt um Ríkisútvarpið og auglýsingar. Leggja beri niður auglýsingar í útvarpi og sjónvarpi. Það heitir í umræðunni ,, að taka RÚV af auglýsingamarkaði”. Enginn veit hinsvegar nákvæmlega hvað þetta RÚV er. Stundum er skammstöfunin notuð um Ríkisútvarpið í heild, útvarp og sjónvarp og stundum aðeins um sjónvarpið. Þetta hefur aldrei verið útskýrt, eða skilgreint.
Ekki mundi Molaskrifari sakna leiknu auglýsinganna í útvarpinu, – og ekki heldur sjónvarpsauglýsinganna, reyndar. Leiknu útvarpsauglýsingarnar eru sumar skelfilegar. Ágengar, groddalegar , – það sem Norðmenn mundu kalla vulgær (Vulgær, ukultivert, simpel, grov). Þetta á ekki síst við um getrauna- og Lottóauglýsingarnar,sem dynja á okkur í tíma og ótíma.
En dokum við. Auglýsingar geta líka verið fréttir. Eru það reyndar oft. Á að banna Ríkisútvarpinu að auglýsa fundi, menningarsamkomur, tónleika og listsýningar? Það geta svo sannarlega verið fréttnæmir viðburðir. Og hvað með dánar- og útfarartilkynningar? Eru þær ekki einskonar auglýsingar. Þau eru ekki glögg mörkin milli auglýsinga og þess sem kalla mætti tilkynningar.
Þetta er ekki eins einfalt mál og þeir sem vilja Ríkisútvarpinu verst vilja vera láta. Langur vegur frá.
AFSAL AÐ EÐA FYRIR
Lesandi Molanna skrifaði (18.11.2015): ,,Á Fésbókinni er kostuð auglýsing frá fyrirtæki sem býður aðstoð vegna afsals. Textinn hljóðar svo:
Þarft þú að ganga frá afsali að fasteign? Hér er skjalið…
http://www.netform.is/index.php…
Þetta stingur í augu. Er ekki réttara að segja „… afsali fyrir fasteign“?
Sjá Netform á Facebook.” Þakka bréfið. Sammála. Afsal fyrir, finnst Molaskrifara að þetta ætti að vera.
FYNDIÐ OG HJÁKÁTLEGT
Molaskrifari getur ekki að því gert, að honum finnst það alltaf dálítið fyndið, hjákátlegt, þegar blaðamenn kalla alla fræga útlendinga,sem drepið hafa niður fæti hér á landi Íslandsvini.
Enginn sönnun er fyrir því að þetta fólk sé Íslandi sérstaklega vinveitt. Meðfædd minnimáttarkennd fær útrás í þessari nafngift.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
23/11/2015 at 16:22 (UTC 0)
Jú, – langtum betri.
Kristján skrifar:
23/11/2015 at 09:09 (UTC 0)
Eftirfarandi fyrirsögn var á RUV.is í gær (22.11.)
„Borgi ekki aukagjald fyrir flýtiafgreiðslu“
„Fólk sem er með framlengt vegabréf og þarf á flýtiafgreiðslu að halda vegna útgáfu nýs vegabréfs þarf aðeins að greiða almennt gjald til áramóta en ekki gjald fyrir flýtiafgreiðslu.“
Hefði ekki betri fyrirsögn verið: Ekkert aukagjald fyrir flýtiafreiðslu.