«

»

Molar um málfar og miðla 1876

AÐ BREGÐA OG AÐ BREGÐAST

Af mbl.is (27.01.2016): ,, Sagði sak­sókn­ari að það hafi verið mat starfs­manna tolls­ins að svo hafi virst sem dótt­ur­inni hafi brugðist mjög þegar bent var á fíkni­efn­in.” Þetta orðalag er út í hött. Hér hefði átt að standa , til dæmis, að dótturinni hafi virst mjög brugðið, þegar bent var á fíkniefnin.

 

AUK ÞESS SEM …

Úr frétt á mbl.s (27.01.2016):,, Bíll tveggja annarra ferðamanna fór út af í hálku efst í Jök­ul­dal. Þeir sluppu við meiðsli, auk þess sem bíll­inn skemmd­ist ekki.” Auk þess sem… Ha? http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/01/27/ferdamenn_i_vanda_a_austurlandi/

Koma þurfti tveimur erlendum ferðamönnum til hjálpar á veginum yfir Öxi. Þorðu ekki að hreyfa bílinn vegna hálku. Komust hvorki lönd né strönd. Höfðu ekið fram hjá þremur viðvörunarskiltum. Skilyrðislaust á að senda svona hálfvitum reikning. Reikna aðstoðina fullu verði.

 

ENN UM OPNUN

Af forsíðu visir.is (27.01.2016): ,, Nýtt útibú Íslandsbanka mun opna næstkomandi haust í Norðurturni Smáralindar.” Þetta nýja útibú verður opnað, það mun hefja starfsemi í haust. Útibúið opnar hvorki eitt né neitt.

 

RÉTTAR SLETTUR

Hér hefur stundum verið vikið að enskuslettum, sem oft eru óþægilega algengar í máli eins þriggja umsjónarmanna morgunþáttar Rásar tvö.

Á miðvikudag (27.01.2016) fengu hlustendur að heyra hve mjög það færi í taugar þessa útvarpsmanns, þegar fólk segði grúbba en ekki grúppa. Sletturnar verða auðvitað að vera réttar. Orðið hópur var nefnt til sögunnar, en vakti ekki umræður.

 

GARÐURINN

Í fjögur fréttum Ríkisútvarpsins (27.01.2016) vitnaði fréttamaður í alþingismann: ,, Hann sagði stjórnendur bankans höggva á garðinn þar sem hann sé lægstur”. Átt var við að Landsbankinn hefði sagt fötluðum starfsmanni upp störfum. Gefið honum kost á starfslokasamningi eða uppsögn, brottrekstri. Fluttur var stuttur kafli úr ræðu þingmannsins. Hann tók ekki svona til orða. Sumpart var upptakan ógreinileg. Sjá: http://www.ruv.is/sarpurinn/ras-1/siddegisfrettir/20160127  Fréttin hefst á 1:40

Mikilvægt er að fara rétt með orðtök. Við tölum ekki um að höggva á garðinn, enda er það út í hött. Við tölum um að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur. Oftast í merkingunni að ráðast á minnimáttar.

Þetta starfslokatilboð/uppsögn er Landsbankanum til skammar , – og var ekki á bætandi.

 

STÖÐVAR Á VETTVANG

Í morgunfréttum Ríkisútvarps (28.01.2016) var sagt frá eldsvoðum og vatnsleka og þannig tekið til orða ,að tvær stöðvar hefðu verið sendar á vettvang. Hefur heyrst áður. Slökkvistöðvar voru auðvitað hvorki sendar eitt né neitt. Lið frá tveimur stöðvum var sent á vettvang. Þetta var betur orðað á mbl.is ,, Kalla þurfti út mann­skap af tveim­ur slökkviliðsstöðvum, alls tíu manns, og auka­búnað til þess að hreinsa upp vatn. “

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>