«

»

Molar um málfar og miðla 1884

MÖR

Sigurður Sigurðarson skrifaði Molum (09.02.2016): ,,Sæll, Eiður,

Þú afsakar, en ég skellti upp úr þegar ég las þetta í frétt á mbl.is. Fréttin er að vísu sorgleg en það kemur málinu ekki við. Ef menn eru ekki klárir á eintöluorðum, þá er um að gera að giska ekki, heldur skrifa sig framhjá. Í þessu tilviki hefði barnið getað skrifað „marbletti“ í stað „mör“. Mör þýðir raunar allt annað, innanfita í sláturfénaði. En getur mör marist?

Fólkið var í fjall­göngu ásamt fleir­um. Kon­an slasaðist nokkuð og er hún meðal ann­ars með brotna hryggj­arliði, brákað rif­bein, skurð og mör. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/02/09/madurinn_ur_ondunarvel/ “  Þakka bréfið Sigurður. Þetta er hreint með ólíkindum.

 

ÚR GAGNSTÆÐRI ÁTT

Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (09.02.2016) var sagt frá járnbrautarslysi í Þýskalandi. Fréttamaður sagði: Lestirnir voru á sama spori og komu úr gagnstæðri átt. Molaskrifari er ekki sáttur við orðalagið að lestirnar hafi komið úr gagnstæðri átt. Lestirnar voru á sama spori, sömu teinum, og komu hvor á móti annarri. http://www.ruv.is/sarpurinn/ras-1/hadegisfrettir/20160209 (01:52) Þetta var mun betur orðað á vef Ríkisútvarpsins , en þar sagði: ,, Lestirnar voru á sama spori milli Münchenar og Rosenheim. Þær komu hvor úr sinni áttinni nærri heilsulindabænum….”

Og eins og svo oft þá étur hver upp eftir öðrum. Í fréttum Stöðvar tvö (09.02.2016) var sagt: ,,Lestirnar komu úr gagnstæðri átt”!

 

FRÉTTAMAT

Um mat má alltaf deila , ekki síst fréttamat. Á laugardagskvöld (06.02.2016) var fyrsta frétt í tíu fréttum Ríkisútvarps um hvaða þrjú popplög hefðu orðið notið mestra vinsælda á kvöldskemmtun, sem Ríkissjónvarpið efndi til í Háskólabíói sama kvöld. Skemmtun var í beinni sjónvarpsútsendingu lungann úr kvöldinu. Rangt fréttamat, að dómi Molaskrifara. Kom svo sem ekki óvart, nú þegar poppið hefur heltekið Ríkisútvarpið ohf.

 

 

AÐ IMPRA Á

Á vef Ríkisútvarpsins (07.02.216) var viðtal við forstjóra Strætó um vagnstjóra, sem orðið hafði uppvís að því að nota farsíma sinn linnulaust undir stýri dágóða stund. Forstjóranum fannst þetta miður og hann kvaðst vera svekktur yfir þessu. Síðan spurði fréttamaður: ,,Munið þið impra á þessu enn frekar eftir þetta?” Greinilega hefur fréttamaður ekki verið með merkingu sagnarinnar að impra á einhverju, alveg á hreinu. Sögnin merkir skv. orðabókinni að minnast á , nefna (lauslega). Sjá : http://www.ruv.is/frett/storhaettuleg-og-ofyrirgefanleg-hegdun Vagnstjórinn fékk áminningu.

 

ÞÁGUFALLIÐ

,,Vantar fyrirtækinu þínu nýtt húsnæði?”. Svona er spurt í auglýsingu frá Fasteignasölu Reykjavíkur í Fréttablaðinu (08.02.2016). Vantar fyrirtækið þitt nýtt húsnæðið?

 

ENN UM ENSKUNA

Í tíu fréttum Ríkisútvarps (08.02.2016) var fjallað um ályktun, eða umsögn, Félags lögreglustjóra um fyrirhugaða lagabreytingu. Þar komu fyrir orðin eltihrellir og umsáturseinelti. Molaskrifara finnst orðið umsáturseinelti vera gott nýyrði, gegnsætt og skiljanlegt. Samt var í fréttinni talið nauðsynlegt að vitna í ensku og nefna enska orðið stalking til að skýra þetta út fyrir hlustendum. Endurtekið í hádegisfréttum. ,, Bæði Lögreglustjórafélag Íslands og lögreglustjórinn á Suðurnesjum telja mikilvægt að sett verði sérstakt ákvæði um umsáturseinelti – „stalking“ eins og það heitir ensku.”

http://www.ruv.is/frett/logreglustjorar-vilja-setja-log-um-eltihrella

Í Morgunblaðinu (09.02.2016) á blaðsíðu 20 er svohljóðandi fyrirsögn: Hvað breytist með mindfulness-iðkun? Enskt orð er hér tekið athugasemdalaust, ekki innan gæsalappa, í fyrirsögn og gert ráð fyrir að lesendur skilji. Í greininni er orðið mindfulness þýtt sem gjörhygli, eða núvitund. Það er líka notað um umhyggju. Í greininni er talað um þjálfun í mindfulness. Verið er að reyna að gera þetta enska orð að íslensku orði. Það er ekki til fyrirmyndar. Hér mun um að ræða einhverja nýtísku grein af Búddisma.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>