FLUGSKÝLISDYR – STORMUR Í VATNSGLASI
Af fréttum í gærkvöldi var að sjá, að flugskýlið, sem Bandaríkjamenn ætla að lappa upp á á Miðnesheiðinni, sé skýlið, sem stendur andspænis gömlu flugstöðinni. Það var lengi kallað Flotaflugskýlið, Navy hangar. Sé þetta rét,t þá er skýlið sextíu ára gamalt. Ég vann í vinnuflokki við byggingu þess sumarið 1955, þegar rigndi alla daga, – eða því sem næst. Í vinnuflokknum voru kunnir menn, meðal annarra Jón Eiríksson, þýskukennari og Magnús Thoroddsen, seinna hæstaréttardómari. Magnús var forkur duglegur, en byggingarvinnan átti ekki vel við Jón. Fleiri voru þar,sem ég man vart að nafngreina, Ævar frá Blönduósi, og Óli frá Akureyri, auk bónda (?) úr Sæmundarhlíð eða Sléttuhlíð. Vinnuaflið streymdi úr öllum landshlutum á Völlinn þessi ár. Þá sváfu einir fjórir eða sex verkamenn í kojum í hálfgerðum kompum í löngum skálum og ekki minnist ég kvartana. Við vorum fjórir í herbergi, aldraður verkamaður svo yngri menn , einn seinna læknir, annar flugstjóri í áratugi, sá þriðji lenti í fréttamennsku, pólitík og fleiru.
Ég var fimmtán ára þetta sumar, sextán í nóvember um haustið. Þurfti raunar reglunum samkvæmt að vera sextán ára til að mega vinna á Vellinum. Maður fékk bæði passa og númer til hengja utan á sig. Velviljaður ráðningarstjóri hjá Sameinuðum verktökum leit viljandi fremur en óviljandi ekki mjög nákvæmlega á fæðingardaginn minn og vissi að blankur skólastrákur þurfti vinnu. Hann þekkti mig svolítið úr skátastarfi. Hugsa alltaf hlýtt til hans síðan.
Man að menn frá Vélsmiðjunni Héðni reistu stálbogana og gengu eftir þeim á toppnum sem væru þeir á stofugólfi. Fluttir voru inn tveir gríðarmiklir amerískir bómukranar á beltum til að reisa þakbogana , hæstu kranar á Íslandi , enduðu held ég hjá Vitamálastjórn. Af gerðinni Lorain, minnir mig. Mikil verkfæri.
Nú er allt vitlaust vegna þess að breyta á dyrunum á flugskýlinu og sinna eðlilegu viðhaldi innanhúss og utan svo nýlegar stélháar kafbátaleitarvélarnar komist þar inn til nokkurrar aðhlynningar. Sennilega rúmast ein slík í skýlinu í senn. Svipuð aðgerð og gerð var á einu flugskýli á Reykjavíkurflugvelli, svo hægt væri í neyð að stinga fyrstu þotu Íslendinga Gullfaxa B-727, Flugfélags Íslands, þar inn í neyð og til eftirlits og lagfæringa.
Ef einhvern tímann hefur átt við að tala um storm í vatnsglasi þá á það við um þetta mál. Og VG sýnist vera að fara á límingunum. Úlfur, úlfur, herinn er að koma aftur !!! Jafnvel er farið að nefna Keflavíkurgöngur, — með spurningarmerki þó ! Kannski er þetta umræðuhefðin í hnotskurn.
Skildu eftir svar