«

»

Molar um málfar og miðla 1908

 

UNDIR YFIRBORÐINU

Molavin skrifaði vegna fréttar á mbl.is (12.08.2016) „Ekki er vitað hvort kaf­bát­ur­inn sé sokk­inn eða ein­ung­is und­ir yf­ir­borðinu…“ segir í frétt á Netmogga 12.03.2016. Væntanlega er hér átt við að hann sé „neðansjávar.“ Það verður æ algengara að blaðamenn þekki ekki íslensk hugtök og reyni sjálfir að þýða orðrétt úr ensku. – Kærar þakkir Molavin. http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/03/12/leita_ad_kafbati_vid_nordur_koreu/

 

AÐ LJÚKA FRAMKVÆMDUM

Eftirfarandi er af fréttavef Ríkisútvarpsins (13.03.2016) ,,Í umfjöllun Herald kemur fram að strax næsta ár fór að síga á ógæfuhliðina og næstu tvö árin tókst ekki að ljúka við neinum framkvæmdum á tilsettum tíma .Svona var þetta reyndar einnig lesið í fjögur fréttum útvarpsins. http://www.ruv.is/frett/gomlu-verkefni-fl-group-beitt-gegn-trump Og óbreytt var þetta lesið í fréttum klukkan 18 00. Enn er spurt. Hlustar enginn í Efstaleiti, eða heyrir enginn?

 

ÓÞÖRF ÞOLMYND

Oft hefur hér í Molum verið minnst á hvimleiða og óþarfa notkun þolmyndar. Þorvaldur skrifaði (13.03.2016): „Maðurinn var svo handtekinn af lögreglunni kl. 5 í morgun og færður í fangageymslu lögreglunnar á Akureyri“ Svona var sagt frá í frétt vefmogga í dag af skothríð á Akureyri. Á íslensku væri þetta: „Lögreglan handtók svo manninn kl. 5 í morgun og færði hann í fangageymslu sína„. Satt og rétt, Þorvaldur. Þakka ábendinguna. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/03/13/var_ein_heima_asamt_2_ara_barni/

 

 

HANDLAGÐIR HNÍFAR

Nokkuð er algengt að sjá í lögreglufréttum í fjölmiðlum að lögreglan hafi haldlagt eitthvað, lagt hald á eitthvað, gert eitthvað upptækt, tekið eitthvað í sína vörslu. Í frétt á mbl.is (13.03.2016) segir hinsvegar: ,,Fundu lög­reglu­menn einnig hnífa í fór­um hans og voru þeir hand­lagðir.” http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/03/13/vimadir_okumenn_um_alla_borg/ Vímaðir ökumenn eru víst ökumenn í vímu vegna fíkniefna- eða áfengisneyslu.

 

AÐ VALDA

Í hádegisfréttum Bylgjunnar (12.03.2016) var sagt frá manni sem ógnaði öryggisverði á Landspítalanum. Fréttaþulur sagði:

,, Maðurinn hafði einnig ollið skemmdum …..” Átt var við að maðurinn hefði einnig valdið skemmdum. Sögnin að valda vefst fyrir reyndustu mönnum.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

1 athugasemd

Ekkert ping ennþá

  1. Eysteinn Pétursson skrifar:

    Er ekki sá kafbátur sokkinn sem kominn er undir yfirborðið? Eða eru menn farnir að leggja í „sokkinn“ merkinguna „sokkinn til botns“, líkt og margir fréttamenn láta sér nægja að segja að maður hafi verið skotinn þegar þeir meina að hann hafi verið skotinn til dauðs – ótvírætt bein þýðing úr ensku þar sem menn virðast ekki skjóta svo að því fylgi ekki bani.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>