SVARLEYSI BJARNA
Í fyrirsögn á mbl.is ( 14.03.2016) segir: Kvörtuðu undan svarleysi Bjarna. Þingmenn höfðu kvartað yfir því að Bjarni Benediktsson hefði ekki svarað fyrirspurn, sem beint hefði verið til hans. Molaskrifari játar að orðið svarleysi hefur hann aldrei heyrt áður. Var ekki verið að kvarta yfir þögn ráðherrans, – að hann hefði þagað þunnu hljóði í stað þess að svara fyrirspurninni?
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/03/14/kvortudu_undan_svarleysi_bjarna/
ENSKAN
Sókn enskunnar er eins og farg á móðurmálinu. Þegar þáttur var kynntur á Rás eitt í Ríkisútvarpinu á mánudagsmorgni (14.03.2016) var sagt að í þættinum yrðu flutt instrumental eða leikin lög. Það var öldungis óþarft að nota þarna enskt orð, sem er eins víst að ekki allir útvarpshlustendur hafi skilið.
FASTEIGNAAUGLÝSINGAR
Ágæt umræða var í Málskotinu í morgunþætti Rásar tvö á þriðjudagsmorgni (15.03.2016). Rætt var um málfar í fasteignaauglýsingum. Þarft að vekja máls á þessu. Það er hrein undantekning að sjá villulausa auglýsingu af þessu tagi. Hefur reyndar stundum verið nefnt hér í Molum. Svo verða lesendur að kunna að lesa úr orðalagi. Þegar sagt er til dæmis, eign (fasteignasalar kalla allt eign) sem gefur mikla möguleika, þá þýðir það á mannamáli yfirleitt að rífa þarf allt innan úr húsinu eða íbúðinni sem verið er að reyna að selja.
ENN UM AÐ STÍGA Á STOKK
Á sunnudaginn var (13.03.2016) var opnuð á vegum Vesturfarasetursins á Hofsósi í Hörpu ljósmyndasýningin Þögul leiftur, sem ættfæðingurinn Nelson Gerrard á Eyrarbakka í Manitoba hefur sett saman. Fróðleg sýning og vel upp sett. Vel þess virði að gera sér ferð í Hörpuna til að skoða þessa merku sýningu um landnemana vestra. Á undan opnuninni var flutt tónlist í Hörpuhorni, þar sem hljómburður er fádæma góður. Þar söng Karlakórinn Heimir. Þóra Einarsdóttir söng einsöng og Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra sté óvænt fram úr áhorfendahópnum og lék á flygilinn með söng Þóru. Bæði skiluðu sínu frábærlega vel, – sem og kórinn, svo unun var á að hlýða. Menntamálráðherra nefndi þetta á fésbók, en hann steig ekki á stokk, eins og það var orðað á fésbókinni og nú er æ oftar sagt um þá sem koma fram og flytja tónlist. Að stíga á stokk er að strengja þess heit að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert, eins og oftlega hefur nefnt í Molum.
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar