«

»

Molar um málfar og miðla 1920

BAKKAFULLUR LÆKUR

Molaskrifari ætlar ekki að bera í bakkafullan lækinn í dag með umfjöllun um pólitíska atburði gærdagsins. Flest bendir til að dagar Sigmundar Davíðs í embætti forsætisráðherra séu taldir. Hann virðist hvorki njóta stuðnings sinna manna né þingmanna í samstarfsflokknum.

 

AÐ SETJA OFAN Í VIÐ

Að setja ofan í við einhvern ,er að veita einhverjum tiltal, ávíta einhvern eða áminna. Í morgunfréttum Ríkisútvarpsins (01.04.2016) sagði fréttamaður um ummæli Steingríms J. um Fjármálaeftirlitið, Landsbankann og Borgunarviðskiptin:,, … og setja alvarlega ofan í bæði Landsbankann og Arionbanka”. Hefði átt að vera: -.. setja alvarlega ofan í við ….

 

HVIMLEITT SKRUM

Fréttatímanum er vikulega stungið óumbeðið inn um póstlúguna hjá Molaskrifara. Þar er vissulega oft ýmislegt bitastætt að finna. En þar eru líka skrifaðar auglýsingagreinar, merktar sem ,,Kynningar” oft sagðar unnar í samstarfi við fyrirtækin, vörurnar eða snákaolíurnar sem verið er að kynna. ,,Unnið í samstarfi við Sæta svínið” , stóð við auglýsingagrein um veitingahús í helgarblaðinu (01.04 til 03.04.). Ef vel er að gáð sjá glöggir lesendur, að þarna er um að ræða hreinar auglýsingagreinar, sem sennilega er borgað fyrir að birta . Þetta er á norsku kallað tekstreklame, sjá: https://snl.no/tekstreklame

Þetta er í senn léleg  blaðamennska, að ekki sé meira sagt. Margir lesendur lesa þetta skrum í góðri trú á að hér sé um hlutlausa umfjöllun að ræða. Svo er ekki. En Fréttatíminn er sannarlega ekki einn um þetta.

 

SLETTUFYRIRSÖGN

Dæmi um slettufyrirsögn af visir.is (02.04.2016)

Kamelljón sem langar í taste af öllu. Frekar subbulegt.

Kamelljón vill bragða allt, reyna allt. Kann blaðamaðurinn, sem skrifar þessa frétt ekki íslensku? Sennilega ekki. Alla vega ekki mjög vel.

http://www.visir.is/kamelljon-sem-langar-i-taste-af-ollu/article/2016160409842

 

MEIRI SLETTUR

Forsetaframbjóðandi, sem ýmsir nefna, en sem enn segist vera að hugsa sig um, var á Sprengisandi á Bylgjunni (03.04.2016). Ekki heyrði Molaskrifari betur en hann segði:,, …eins og við köllum á fínu diplómatamáli moving target. “ Moving target er enska og þýðir skotmark á hreyfingu. Molaskrifari var um skeið í utanríkisþjónustunni og hitti marga diplómata. Hann kannast ekki við þetta úr þeirra málfari, – skildi þess vegna ekki hvað átt var við. Þeir sem hyggja á búsetu á Bessastöðum ættu að einbeita sér að íslenskunni, þegar þeir tala við fólk.

 

SMARTLAND BREGST EKKI

Lesendum mbl.is hlýtur að vera létt að vita að nafngreind kona er ólétt.http://www.mbl.is/smartland/stars/2016/03/29/rakel_og_bjorn_hlynur_eiga_von_a_barni/

Smartlandið, sem Moggi kallar svo, bregst ekki frekar en fyrri daginn. Ættu óléttufréttir annars ekki bara heima á auglýsingasíðum Moggans?

 

MARGLYTTUR

Geir Magnússon skrifaði (03.04.2016): ,,Sæll vertu Eiður

Netmoggi birtir í dag frétt um marglyttur á ströndum Flórída.

í fréttinni er eignarfall fleirtölu “marglytta” sem ég hnaut um, fannst að það ætti að vera marglyttna. Talaði við Silju fréttastjóra mbl.is, sem tók máli mínu vel en sagði, eftir athugun, að Árnastofnun beygði þetta orð eins og það var í blaðinu.

Ekki veit ég hvernig Árnastofnum kemur inn í málið, en er ekki sannfærður. Hvað segir þú um þetta?” Á vef Árnastofnunar er Beygingarlýsing íslensks nútímamáls. http://bin.arnastofnun.is/forsida/

Þar er ef. flt. marglytta. Molaskrifari hefði annars haldið að hvort tveggja væri jafnrétt marglytta og marglyttna. Þakka bréfið.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>