HRINGAVITLEYSA OG AÐ STÍGA TIL HLIÐAR
Enn þvældu stjórnmálamálamenn og einstaka fréttamenn um það í fréttum gærdagsins (05.04.2016) að Sigmundur Davíð væri að stíga til hliðar eða stíga niður. Í sjónvarpsfréttum gærkveldsins talaði Bogi réttilega um að hann væri að segja af sér. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hafði tilkynnt að hann ætlaði að segja af sér. Formleg afsögn tekur gildi á ríkisráðsfundi, þegar annað ráðuneyti tekur við. Afsögn er orðið sem á að nota, ekki stíga til hliðar eða stíga niður, sem sennilega er ættað úr ensku, step aside, step down. Það þýðir á íslensku að hætta, segja af sér , láta af störfum.
Fram á kvöld í gær var atburðasrásin skír. Það þurfti engan ,,útskýrara”. Svo skír að leiðari Morgunblaðsins í dag (06.04.2016) er pólitísk eftirmæli. Kaflaskil heitir leiðarinn Pólitísk minningargrein um forsætisráðherraferil SDG. Eins og þruma úr heiðskíru lofti ( það var voru nú reyndar óveðursský á hinum pólitíska himni í gær) kemur svo í gærkvöldi tilkynning til erlendra fréttamanna, já til erlendra fréttamanna um SDG sé ekki búinn að segja af sér, sé ekki hættur, hafi bara farið í frí um ótiltekinn tíma og varaformaður flokksins muni hlaupa í skarðið á meðan!!! Jóhannes ,,útskýrari” sá að þetta þurfti að skýra, því þetta var eiginlega allt á misskilningi byggt. Sigmundur Davíð hafði alls ekkert sagt af sér.
Erlendir fjölmiðlar botna hvorki upp né niður í málinu , ekki fremur en íslenska þjóðin sem frétti þetta frá blaðamanni Financial Times og svo íslenskum samfélags- og fjölmiðlum. Fyrst klóra menn sér í hausnum, fara svo að hlæja og spyrja sjálfsagt: Er ráðamönnum á Íslandi ekki lengur sjálfrátt, eru þeir ekki með öllum mjalla?
Hvað segja Sjálfstæðismenn nú? Eru þeir að semja nýjan stjórnarsáttmála andspænis einhverjum bráðabirgða forsætisráðherra, sem á að sitja í nokkrar vikur eða mánuði? Eða kannski heilt misseri áður en SDG, sem þingmenn Framsóknar kalla leiðtogann ( eiginlega vorn mikla og ástsæla eins og sagt var í Norður Kóreu), sest aftur á valdastól.
Enn einu sinni er búið að gera okkur að athlægi auk þess að draga nafn landsins niður í svaðið.
Nú hljóta Sjálfstæðismenn að setja hnefann í borðið. Hingað og ekki lengra. Þetta geta þeir ekki látið bjóða sér.
Annars skal ítrekað hér, að fréttastofa Ríkisútvarpsins stóð sig frábærlega vel í hinni pólitísku ringulreið gærdagsins, eins og Molaskrifari hefur raunar áður sagt á fésbók.
FYRIRSAGNIR
Daginn eftir mótmælafundinn mikla á Austurvelli (05.04.2016) sagði Morgunblaðið í forsíðufyrirsögn: Mörg þúsund mótmæltu. Á forsíðu Fréttablaðsins sagði: 22.000 mótmæltu. Það var haft eftir þeim sem skipulögðu mótmælafundinn. Forsíðumynd Fréttablaðsins sýndi manngrúann vel. Það gerði forsíðumynd Moggans hinsvegar ekki eins vel.
SKÖMMTUN
Í morgunfréttum Ríkisútvarps (05.04.2015) var talað um ,, að skammta þyrfti vatni og rafmagni í …” Hefði átt að vera: Að skammta þyrfti vatn og rafmagn.
BERA GÆFU TIL
Úr fésbókarfærslu fjölmiðlamanns (05.04.2016) ,, Svo mun okkur bera gæfa til að horfa til Norðurlanda í framtíðinni.” Það er því miður allt of algengt að farið sé rangt með þetta orðtak. Þetta ætti auðvitað að vera: ,, Svo munum við bera gæfu til að horfa til Norðurlanda í framtíðinni”. Alveg óhætt að taka undir efni þess sem hér er var skrifað, – að horfa til Norðurlandanna.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
19/04/2016 at 10:00 (UTC 0)
Að sjálfsögðu, Axel. Velkominn í hópinn. Það hafa margir gert athugasemdir við þetta orðalag að ,,stíga til hliðar“. Ráðherra sagði af sér, baðst lausnar er kannski það sem er formlega réttast. Gott mál og gegnsætt. Við höldum baráttu fyrir bættu málfari til streitu. Kær kveðja.
Axel Kristjánsson skrifar:
19/04/2016 at 09:33 (UTC 0)
Góðan dag!
Því miður er nú svo komið, að undanhaldið í meðferð íslenskunnar fyllir mig vonleysi um framtíð málsins. Stjórnmálamenn og fjölmiðlamenn eru sannkallaðir Talibanar í þeim efnum, og síðan lepur hver eftir öðrum.
Dæmi núna:
Sigmundur Davíð hefur ákveðið að stíga til hliðar og félagar hans ætla að fara yfir málin.
Til skamms tíma hefði verið sagt: Sigmundur Davíð ætlar að víkja (úr sæti) eða segja af sér og félagar hans ætla að ræða málin.
Ég held, að ég hafi heyrt rétt, að þingmaður Samfylkingar sagði tvisvar á Alþingi, að atburðir síðustu daga væru álitshnekkur (þó ekki álitshlekkur) fyrir Ísland.
Aðeins eitt dæmi af tugum eða hundruðum, sem hafa verið mér til ama.
Kveðja,
Axel Kristjánsson.
Ps. Má ég nýta þennan vettvang til að ónotast við þá, sem eru að eyðilegga málið okkar.