«

»

Molar um málfar og miðla 1945

SELDUR – SELDUR TIL

JT skrifaði Molum og vitnaði í frétt af vef Ríkisútvarpsins um að Ásmundarsalur hefði verið seldur. Fyrirsögnin var: Ásmundarsalur seldur til fjárfesta.  Í fréttinni segir: ,,Ásmundarsalur, hús Listasafns Alþýðusambands Íslands við Freyjugötu, hefur verið seldur til Aðalheiðar Magnúsdóttur og Sigurbjörns Þorkelssonar. Sigurbjörn Þorkelsson er fjárfestir og stjórnarformaður Fossa markaða, verðbréfamiðlunar.”

JT spyr:,,Af hverju þarf að segja seldur til – af hverju ekki bara seldur…. í þessu tilviki Aðalheiði og Sigurbirni? Þetta er mjög algeng orðnotkun og hvimleið þegar til er algjörlega óþarft.”  Satt og rétt, JT. Sjá: http://www.ruv.is/frett/asmundarsalur-seldur-til-fjarfesta

 

Síðan segir JT: ,, Tek undir allar ábendingar þínar um undarlega notkun á viðtengingarhætti í fyrirsögnum. Og um að gera að halda þeim til streitu.”- Það verður gert, JT. Kærar þakkir fyrir bréfið.

 

VOND ÞÝÐING

TH skrifaði (06.06.2016) og benti á þessa frétt á mbl.is: http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/05/06/60_metra_eldtungur_loka_flottaleidinni/

„Einu flótta­leiðinni fram­hjá kanadísku borg­inni Fort McM­urray, þar sem gíf­ur­leg­ir eld­ar hafa brunnið und­an­farna daga, var lokað í dag af ríf­lega 60 metra háum eld­tung­um sitt­hvoru meg­in veg­ar­ins.“ Ósköp má nú mikið vanda sig betur við þýðinguna:
Eina flóttaleiðin framhjá kanadísku borg­inni Fort McM­urray, þar sem gíf­ur­leg­ir eld­ar hafa brunnið und­an­farna daga, lokaðist í dag af ríf­lega 60 metra háum eld­tung­um báðum megin vegarins.
Eða:
Sextíu metra háar eldtungur, báðum megin vegarins, lokuðu í dag einu flóttaleiðinni fram­hjá kanadísku borg­inni Fort McM­urray, þar sem gíf­ur­leg­ir eld­ar hafa brunnið und­an­farna daga.
Áfram:
„Að sögn frétta­vefjar BBC var bíla­lest 1.500 bíla í fylgd lög­reglu …“
Að sögn frétta­vefjar BBC var 1.500 bíla lest í fylgd lög­reglu …

Enn áfram:
„Um 500 bíl­ar lögðu á sig þessa hættu­legu ferð …“
Nei, bílarnir eru hvorki færir um hugsun né ákvarðanatöku, þannig að þeir hafa ekki lagt neitt á sig.
Um 500 ökumenn lögðu á sig þessa hættu­legu ferð …
Fleiru er reyndar klúðrað í þýðingu þessarrar litlu fréttagreinar; þetta eru einungis verstu dæmin. Er enginn fullorðinn að fylgjast með börnunum?”. – Þakka bréfið, T.H. Allt er á sömu bókina lært. Ekkert eftirlit. Enginn les yfir. Enginn leiðbeinir nýliðum, eða þeim sem þurfa á leiðsögn að halda. Enginn metnaður til að gera vel, –  til að vanda sig. Metnaðarleysið ræður ríkjum. Og ekki aðeins á mbl.is.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>