«

»

Molar um málfar og miðla 1946

Hlé hefur verið á Molaskrifum um skeið. Molaskrifari brá sér  af bæ. Tók sér far með  ferjunni Norrænu frá Seyðisfirði  og  heimsótti  gamla vini í Færeyjum í fáeina daga. Það var ævintýraferð og góðra vina fundur.  Sól og blíða í Færeyjum nær allan tímann,   svolítill suddi síðasta daginn, sirm, eins og  heimamenn segja.

 

AÐ VILLA SÉR HEIMILDUM  OG FJÁRMÖGNUN ÚTFARAR

Molavin skrifaði (14.05.2016):   „Maðurinn villti á sér heimildum…“ sagði Geir Gígja Gunnarsson í fyrstu kvöldfrétt RUV (14.05.2016). Skiljanlegt er að mislestur hendi í útvarpi, en svona reyndist þetta þó líka skrifað á heimasíðu. Úr því hvorki vaktstjóri né fréttastjóri lesa yfir fréttatexta er enn brýnna að málfarsráðunautur leiðbeini fréttamönnum.”  Satt er það, Molavin.

Og hér kemur annað bréf frá Molavin  (18.05.2016)  ,, Hátíðlegt skal það vera! „Pen­inga­söfn­un hef­ur verið sett af stað til þess að aðstoða móður Co­dys við að fjár­magna jarðarför hans…“ Þetta er úr frétt Netmogga 18.05.2016 og þar er ekki látið nægja að tala um að kosta útförina. Þetta er greinilega fjárfestingarkostur, svo notað sé annað ofnotaða hugtakið úr fjármálafréttum.”   –  Kærar þakkir, Molavin. Já. Ekki vantar  hátíðlegheitin!

 

OPINBER HEIMSÓKN

Í fréttum Ríkisútvarps (11.05.2016) var okkur sagt, að  Donald Trump forsetaframbjóðandi vestra ætlaði að fara í opinbera heimsókn til Ísraels á næstunni.  Það getur hann ekki. Ekki  frekar en  Davíð, Guðni Th.  eða Sturla Jónsson gætu farið í opinbera heimsókn til Danmerkur í næstu viku . Verði  Trump,  illu heilli, kjörinn  forseti getur hann  auðvitað farið í opinbera heimsókn til Ísraels. Eftir að hann hefur tekið embætti.  Ólíklegt er þó að  það verði efst á verkefnaskránni, – þrátt fyrir  þá staðreynd að gyðingar eru  valdamiklir í stjórnmálum vestra.

 

ÓKURTEISI

Blaðamenn  eru stundum sagðir ókurteisir. Oft er það út í hött. Beinskeyttar spurningar eru ekki ókurteisi. Það má hinsvegar kallla  það ókurteisi, ef  þeir sem  spurðir eru, oftast stjórnmálamenn, víkja sér hvað eftir annað undan því að svara eðlilegum spurningum, eða fylgja spurningum eftir.

Sjaldan eða aldrei hef ég heyrt  aðra eins ókurteisi  og  Ástþór Magnússon, forsetaframbjóðandi  sýndi Arnari Páli Haukssyni í viðtali í Spegli Ríkisútvarps  á þriðjudagskvöld. Ég  er ekki viss um , ef ég  hefði verið í sporum Arnars  Páls, að ég hefði haft geð  í  mér  til að halda  samtalinu áfram. En hann þraukaði. Ástþór sagði til dæmis við Arnar Pál: ,, Ég velti því fyrir mér hvort þú værir  kannski betur kominn á kassa í Bónus, en að starfa hér”.  Hvers vegna  þarf Ástþór Magnússon að gera lítið úr fréttamanninum og  fólkinu sem afgreiðir okkur í  Bónus ? Innihald viðtalsins var ekki merkilegt.

http://www.ruv.is/frett/ruv-buid-ad-raena-kosningunum

 

FÖT OG VEFNAÐUR

Ekki heyrði skrifari betur en  sagt  væri í auglýsingu í Ríkisútvarpinu (11.05.2016): Barnafötin frá Lin Design  eru ofnar úr okkar allra bestu bómull. Ofin úr okkar allra bestu bómull,   hefði þetta átt að vera. Nokkrum dögum heyrði skrifari aðra útvarpsauglýsingu frá sama fyrirtæki,  villulausa, um ofinn varning.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

 

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Hárrétt, Kolbrún. Það er ekki hægt að tala um hvernig rannsókn líði !!!! Gæðaeftirlit, yfirlestur, tíðkast ekki lengur á fréttastofu Ríkisútvarpsins. Af sem áður var.

  2. Kolbrún Halldórsdóttr skrifar:

    Hvað segirðu um þetta orðalag, Eiður:

    Fréttastofa óskaði eftir upplýsingum um hvort handtökubeiðni á hendur Alfreð hefði verið felld niður og hvernig rannsókn á máli hans liði.

    Sjálfri hefði mér þótt fara betur á að segja:

    Fréttastofa óskaði eftir upplýsingum um hvort handtökubeiðni á hendur Alfreð HAFI verið felld niður og HVAÐ rannsókn á máli hans LÍÐI.

    http://ruv.is/frett/alfred-ekki-lengur-a-medal-eftirlystra

    Þessar samsettu tíðir í íslensku eru auðvitað afar flóknar, en mikið væri nú gott ef fréttamönnum RÚV væri gert að þekkja þær betur en raun ber vitni. Hitt atriðið ætti hvert mannsbarn að þekkja, HVAÐ sem öðru líður….

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>