«

»

Molar um málfar og miðla 1947

 

ÞAU BLÓMSTRA

Þau blómstra fréttabörnin á visir.is. Þeim þarf að leiðbeina.

Sigurður Sigurðarson skrifaði (13.05.2016) ,,Sæll,

Auðvitað er þetta ekki boðlegt á visir.is , en þegar börnin fara illa með leikföngin þarf að leiðbeina þeim og hlynna að. Á meðan eiga þau ekki að skrifa í fjölmiðla:

Guðjón Baldvinsson, framherji Stjörnunnar, skoraði í kvöld næst fljótasta markið í sögu efstu deildar á Íslandi þegar hann kom sínum mönnum í 1-0 gegn Þrótti eftir aðeins níu sekúndur. http://www.visir.is/throttur-byrjadi-med-boltann-en-gudjon-skoradi-eftir-niu-sekundur-sjadu-markid/article/2016160519507

 

Hér er átt við að aðeins einn hafi verið jafn snöggur að skora mark í upphafi leiks og þessi frábæri leikmaður Stjörnunnar.”

Þakka bréfið, Sigurður. Þessu má svo bæta við:

Á forsíðu visir.is (18.05.2016) er talað um Umferðarofsa, og þar segir: Kona var kýld þegar hún reyndi að koma á milli í slagsmálum. Konan reyndi ekki að koma á milli. Hún reyngi að ganga á milli, stilla til friðar. Úr sömu frétt (18.05.2016) : Fjórir einstaklingar úr tveimur bílum fóru að rífast sín á milli .. Ekkert sín á milli. Fóru að rífast. Lentu í rifrildi. http://www.visir.is/umferdarofsi-leidir-til-slagsmala-a-hradbraut/article/2016160519072

Úr annarri frétt í sama miðli sama dag: Gríðarleg öryggisgæsla er í Hong Kong þar sem háttsetinn ráðamaður Kína er kominn til borgarinnar. Hér er átt við háttsettan ráðamann, ekki háttsetinn, sem er bull. Þetta er reyndar rétt orðað á forsíðunni. http://www.visir.is/gridarleg-oryggisgaesla-i-hong-kong/article/2016160519114

Í frétt á visir.is (16.05.2016) var fjallað um frumvarp til breytinga á reglum um áfengiskaup ferðamanna í Flugstöð Leifs Eiríkssonar . Þar vefst fyrir fréttaskrifaranum munur á notkun sagnanna að kaupa og versla. Í fréttinni segi: Frumvarp fjármálarráðherra felur í sér að miðað er við einingar í staðinn, nánar tiltekið að hver ferðamaður megi versla sex einingar. Hér hefði að sjálfsögðu átt að tala um að hver ferðamaður mætti kaupa sex einingar, EKKI versla sex einingar. Þetta hefur ærið oft verið nefnt í Molum.

http://www.visir.is/atvr-og-isavia-gagnryna-fyrirhugadar-breytingar-a-afengiskvota/article/2016160519206

 

FJÖLGUN Á STULD!

Úr fréttum Ríkisútvarpsins (13.05.2016): Mikil fjölgun hefur verið á bílstuld á síðust tveimur árum. Bílstuldum hefur fjölgað mjög að undanförnu, hefði verið betra. http://www.ruv.is/frett/badir-bilarnir-fundnir

 

KEPPNI?

Það hvarflar stundum að Molaskrifara, hvort ríkisstyrkta Lottóið og stóru happdrættin ( sem kannski má líka segja að séu ríkisstyrkt, – sum hver a.m.k.) séu komin í keppni um hver bjóði okkur upp á frekjulegustu, ágengustu, skapi næst að segja ,,plebbalegustu” útvarpsauglýsingarnar? Oft er engu líkara, en svo sé.

 

AÐ VERÐLEIKUM

Margrétar Indriðadóttur fyrrverandi fréttastjóra Ríkisútvarpsins, sem lést í hárri elli 18. maí var minnst að verðleikum í fréttum útvarps og sjónvarps (19.05.2016).

Þær gerðu það smekklega, Margrét E. Jónsdóttir og Sigríður Árnadóttir, sem lengi störfuðu með Margréti, – báðar frábærir fréttamenn. Margrét Indriðadóttir var fagmaður fram í fingurgóma, gerði ríkar kröfur til sjálfrar sín og fréttamanna um vandvirkni og hnökralaust málfar. Margrét var brautryðjandi og fyrirmynd í góðum vinnubrögðum og markaði spor í sögu fjölmiðlunar á Íslandi. Blessuð sé minning hennar. Arnar Páll fréttamaður tók þetta saman og gerði það vel.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>