«

»

Molar um málfar og miðla 1953

GRÍÐARLEGA GRÍÐARLEGUR

Molavin skrifaði (27.05.2016): „Hún fer gríðarlega ótroðnar slóðir…“ sagði kona í þættinum Samfélagið á Rás 1. Ofnotkun lýsingarorða gjaldfellir þau og það á ekki sízt við um orðið „gríðarlegur.“ Það er hægt að fara troðnar slóðir – og þá mistroðnar – en ótroðnar slóðir geta varla stigbeygzt . Flugvélin getur verið ókomin en varla gríðarlega ókomin. Bíllinn getur verið óseldur en varla gríðarlega óseldur. Gríður er gamalt orð yfir tröll. Það er ofnotað í myndlíkingum. Mætti segja „gríðarlega ofnotað.“ –  Satt og rétt, Molavin, – þakka þér bréfið.

 

HRAÐLESTARRUGL

Fram kom í fréttum Ríkisútvarps að morgni (27.05.2016) að Reykjavíkurborg ætlar að byrja að nota fjármuni skattborgara sinna í lestarórana,-   um hraðlestarsamgöngur  milli höfuðborgarsvæðis og Keflavíkurflugvallar. Fram til þessa hefur ætíð verið talað um þetta sem algjöra einkaframkvæmd. Ekki ætti neitt opinbert fé að koma til. Það gildir greinilega ekki lengur. Leitað er á náðir hins opinbera löngu áður en ákvörðun um framkvæmdina, af eða á, er í augsýn. Dæmigert.  Sennilega hefur hugmyndin um einkafjármögnun  siglt í strand og því skal nú farið í vasa borgaranna.  Er fjárhagur borgarsjóðs svo góður um þessar mundir að þessi ævintýramennska sé verjanleg? Undirbúningsfélagið um lestarævintýrið er sem sagt nú komið á spena hins opinbera, –  í skjóli meirihlutans sem stjórnar höfuðborginni.

Hvernig væri að ljúka við tvöföldun Reykjanesbrautar, áður en ætt er út í þetta fen?

 

SKARPSÝN SKÖTUHJÚ

Ingibjörg sendi eftirfarandi (28.05.2016), en það er af forsíðu Sarps Ríkisútvarpsin: ,,Skarpsýn skötuhjú – Partners in Crime.  ,Breskur spennumyndaflokkur byggður á sögum Aghötu (svo!) Christie. HjóninTommy og Tuppence elta uppi njósnara í Lundúnum á sjötta áratugnum. Það reynist hjónunum erfiðara að segja skilið við heim njósna og kalds stríðs en þau nokkurn tíma óraði fyrir.” Síðan segir hún:,, Hvað finnst þér um þessa kynningu RÚV? Í fyrsta lagi kannast ég ekki við orðmyndina „skarpsýn“, þótt hún sé verjandi, sbr. „nærsýn“. „Skarpskyggn“ er gefið upp í Ísl. orðabók sem Mörður Árnason ritstýrði, en orðmyndin „skarpsýn“ finnst þar ekki.

Hitt finnst mér verra að þessi harðgiftu og samhentu hjón séu kölluð skötuhjú. Skv. sömu orðabók eru skötuhjú ógift par (niðrandi eða í spaugi).

Ég hef reyndar sett fram þá tilgátu að hin upphaflegu skötuhjú séu þau sem myrtu eiginmann konunnar 1704 við Skötuhyl í miðkvísl Elliðaánna (nú þurri), og hentu honum svo í hylinn. Þau voru tekin af lífi f. verknaðinn á Kópavogsþingi.” Þakka bréfið, Ingibjörg. Það er fljótsagt, – þetta er hvorki til fyrirmyndar né Ríkisútvarpinu til sóma.

 

MÆTTUR Í ÁNNA

Af mbl.is (27.05.2016): ,,Lax­mýr­ing­ar sáu fyrsta lax­inn við staur­inn í Kistu­kvisl í dag. Þar sjást venju­lega þeir fyrstu sem ganga í ánna. Opnað verður 20. júní næst­kom­andi.” Það var og. Enn einu sinni. Mbl.is fellur á prófi í grundvallaratriði í málfræði. Grunnskólamál. Hér ætti að standa , – sem ganga í ána. Eignarfall fleirtölu með greini , ánna, hefur hér ekkert að gera og er rangt.

Orðið á beygist eins og hér má sjá:

http://bin.arnastofnun.is/leit/?id=12276

Enginn metnaður.

http://www.mbl.is/veidi/frettir/2014/05/25/laxinn_maettur_i_laxa_i_adaldal/

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>