ÞÖRF ÁDREPA
Molavin skrifaði (28.05.2015): ,,Netmoggi birtir í dag (28.05.2016) frétt af óhugnanlegri hópnauðgun í Brasilíu. Fréttin er orðrétt tekin upp úr frétt BBC en hefst á þessari undarlegu þýðingu: „Tímabundinn forseti Brasilíu, Michel Temer, hefur kallað öryggisráðherra allra ríkja landsins á neyðarfund…“ Frétt BBC hefst á þessum orðum: „Brazil’s interim President Michel Temer has called an emergency meeting of state security ministers…“ Burtséð frá því hversu tímabundinn Temer varaforseti kann að vera, sem er nú settur forseti (acting president) meðan Dilma Rousseff forseti sætir rannsókn, þá birtir Morgunblaðið hér undarlega skilgreiningu á stjórnskipan Brasilíu. Þannig er og hefur verið áratugum saman að ýmsir ráðherrar ríkisstjórnar landsins ásamt yfirmönnum hersins skipa svokallað „þjóðaröryggisráð.“ Það hefur nú verið kallað saman.
Að Morgunblaðið haldi því fram að margar ríkisstjórnir séu í Brasilíu er aðeins dæmi um það að blaðamennskan þar snýst nú um að illa upplýstir blaðamenn þýði orðrétt fréttir erlendra fjölmiðla. Þýði þær rangt og illa og geti ekki heimilda. Morgunblaðið má muna sinn fífil fegurri.” Það er svo sannarlega rétt, Molavin. Þakka bréfið. Þessum víðlesna miðli fer hrakandi. Málfjólum fjölgar, vandvirkni og metnaði er vikið til hliðar. Ekki er það gott. Langur vegur frá.
ÞEGAR MERKINGIN UMHVERFIST
Stundum missa orð merkingu sínu og stundum snýst merkinginn við. Orð fara að merkja andstæðu þess sem var upphafleg merking. Þannig er með orðið ógeðslegur. Það hefur fram til þessa þýtt viðbjóðslegur, sá sem veldur andúð.(sjá ísl. orðabók) Nú hefur þetta orð á seinustu árum fengið jákvæða merkingu. Í Vikulokunum á Rás eitt (28.05.2016) heyrði Molaskrifari ekki betur en kona, sem var gestur í þættinum, segðist vera ógeðslega stolt af lögreglunni. Hún var að tala um baráttu lögreglunnar gegn mansali og heimilisofbeldi. Konan átti við á meira gamaldags íslensku, að hún væri mjög ánægð með eða mjög stolt, hreykin af starfi lögreglunnar á þessum sviðum. Svona teygist og tognar á málinu. Unglingar tala um að eitthvað sé ógeðslega gott, ógeðslega skemmtilegt. Mjög gott, bráðskemmtilegt.
ENN ERU BOÐNAR SKÍRNATERTUR
Bakari í höfuðborginni heldur áfram að bjóða okkur skírnatertur í auglýsingum í Ríkissjónvarpinu (29.05.2016) . Molaskrifari er á því að rétt sé að tala um skírnartertur, ekki skírnatertur. Yfirlestur eða prófarkalestur er víst löngu kominn úr tísku á auglýsingadeild Ríkissjónvarpsins. Þar taka menn bara við því sem að þeim er rétt, athugasemdalaust. Þannig á það ekki að vera.
FÁTÆKT FÓLK
Fátækt fólk eftir Tyggva Emilsson er um þessar mundir kvöldsagan á Rás eitt. Varð til þess að ég tók bækurnar fram og las þessar merku æviminningar að nýju. Tryggvi skrifar á köflum fágætlega fallegan texta, einkum og sér í lagi, þegar hann lýsir náttúrunni og högum álmúgans á æskuárum hans. Meðal ævisagna er þetta öndvegisverk. Frá Alþýðublaðsárunum man Molaskrifari vel eftir Tryggva en Verkamannafélagið Dagsbrún var þá með skrifstofu á sömu hæð Alþýðuhússins og ritstjórn Alþýðublaðsins. Þar mætti maður líka næstum daglega Eðvarði Sigurðssyni Guðmundi jaka ,Kristjáni Jóhannssyni og Hannesi M Stephensen.Sigurðar Guðnasonar minnist ég líka í svip, svo og fleiri verkalýðsleiðtoga , sem ég hafði horft til úr fjarlægð í verkfallinu mikla 1955. Þá þvældist ég dálítið með verkfallsvörðum.
Vel valin og vel lesin kvöldsaga.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar