«

»

Molar um málfar og miðla 1956

RÖNG GREINING FRUMLAGS

Molavin skrifaði (01.06.2016): ,,Það er nær daglegur viðburður að sjá í fréttaskrifum ranga greiningu frumlags í setningu. Sbr. þessi dæmi úr sömu frétt ruv.is í dag 1.6.2016: „Fjölmennt lið björgunarsveita og lögreglu björguðu erlendum ferðamönnumLögregla fékk tilkynninguna um miðnætti og óskuðu eftir aðstoð björgunarsveita…“ Þarna var það lið sem bjargaði og lögregla sem óskaði. Það á ekki að krefjast flókinnar hugsunar að greina hvert er frumlag setningarinnar.” Rétt er það, Molavin. Ekki flókið, en ótrúlega mörgum samt ofviða.

 

HUGLEIÐING – UM ATVIKSORÐ

Sigurður Sigurðarson skrifaði (30.05.2016):,, Hver er munurinn á þessu tvennu:

„Menn gleyma norður­ljós­un­um aldrei“ eða Menn gleyma aldrei norðurljósunum?

 

– Í raun er enginn munur á þessu, segir Sigurður, – en hins vegar finnst mér fara betur á því að nota hið síðara. Hið fyrra er að finna hér á mbl.is. Annars kunna að vera áhöld á því hvar atviksorð eiga heima, en íslenskan er tiltölulega frjálslynd með röðun orða. Þeir sem hafa vanist lestri íslenskra bóka frá barnæsku ættu þó að geta af tilfinningunni einni saman sett þau á réttan stað í texta”. Molaskrifari þakkar Sigurði bréfið.

 

LANDAFRÆÐIN

Of oft sjást þess merki, að fréttaskrifarar eru ekki nægilega vel að sér í landafræði eða því að kunna skil á algengum örnefnum. Af fréttavef Ríkisútvarpsins (30.05.2016): ,, Lögregla bendir vegfarendum á fara Kjósaskarðveg.” Það er ekkert til sem heitir Kjósaskarðsvegur. Hér er verið að skrifa um veginn um Kjósarskarð, Kjósarskarðsveg.

http://www.ruv.is/frett/motorhjolamadur-alvarlega-slasadur

 

GAMALDAGS

Molaskrifara finnst það vart við hæfi, þegar í fyrirsögnum á fréttavef Ríkisútvarpsins er talað um Mosó í stað Mosfellssveitar og kló í staðinn fyrir klósett (30.05.2016). Einhverjum kann að finnast þetta gamaldags sjónarmið og nöldur, en þá verður svo að vera. Í þessum efnum er Molaskrifari íhaldsmaður.

 

AÐ BÍTA ÚR NÁLINNI

Í íþróttafréttum í seinni fréttum Ríkissjónvarps (30.05.2016), sagði íþróttafréttamaður um leik Stjörnunnar og Breiðabliks: ,, … en Stjörnumenn fengu þó að bíta úr nálinni með þetta…” Stjörnumenn höfðu ekki nýtt tvö góð tækifæri til að skora mark. Molaskrifara er öldungis óskiljanlegt hversvegna fréttamaður notar þarna orðtakið að bíta úr nálinni. Molaskrifari er á því að fréttamaður skilji ekki orðatakið, sem venjulega er að vera ekki búinn að bíta úr nálinni með e-ð, – vera ekki búinn að taka (neikvæðum) afleiðingum einhvers , e-u neikvæðu er ekki lokið. Mergur málsins eftir Jón G. Friðjónsson bls. 622.

Ef menn nota orðtök í fréttaskrifum verða þeir að skilja merkingu þeirra og kunna að nota þau.

 

AULAFYNDNI

Það er fréttnæmt og það eru  tímamót, þegar hætt er að nota Skólavörðustíg 9 , hegningarhúsið sem fangelsi eftir 142 ár. En hversvegna þurfti Ríkissjónvarpið (01.06.2016) að vera með aulafyndni og handjárnasýningu í frétt um lokun hegningarhússins? Fréttastofan setur niður við svona barnaskap. Leikaraskapur af þessu tagi á ekkert erindi í fréttir.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>