«

»

Molar um málfar og miðla 1957

EKKI GOTT

Velunnari Molanna benti skrifara á þessa frétt á fréttavef Ríkisútvarpsins (02.06.2016) : http://www.ruv.is/frett/okumadur-a-gjorgaeslu-eftir-bilveltu

Í fréttinni segir meðal annars:,, Bíllinn hafi festist í fjallshlíðinni og þegar bílstjórinn reyndi að leysa bílinn úr hjólförum fór hann fram af brúninni og valt sex veltur. Konan og börnin voru þá farin úr bílnum og því maðurinn einn eftir þegar bíllinn valt. Heimildir fréttastofu herma að bílstjórinn hafi skotist úr bílnum og að hann hafi fengið bílinn ofan á sig í einni veltunni. “

Þegar svona texti birtist á fréttavef  Ríkisútvarpsins, – þá er eitthvað að. Er enginn verkstjórn, engin ritstjórn til staðar? Enginn metnaður til að gera vel?

 

EINS OG PABBAR SÍNIR

Sigurður Sigurðarson skrifaði Molum (31.05.2016): ,,Stefán Árni Pálsson blaðamaður á visir.is skrifar á vef sínum um fatnað þingmanna í eldhúsdagsumræðum. Hann segir meða annars:

Haukur segir að menn séu oft klæddir eins og pabbar sínir á þingi.

Æ, æ, æ. Þegar mér var sagt til í gamla daga á síðdegisblaði sem hét Vísir var gerð krafa til þess að blaðamaðurinn leiðrétti það sem haft var eftir viðmælandanum, hvort sem það er í beinni og óbeinni ræðu. Mér finnst þetta ágæt regla svo fremi sem blaðamaðurinn hefur getu til þess. Ef ekki er hann í röngu starfi.

 

Réttara hefði verið að segja þarna: Haukur segir að menn séu oft klæddir eins og feður þeirra/pabbar þeirra á þingi. Þó má enn notast við barnatalið; Komdu nú til babba síns/mömmu sinnar … Gera verður þó þær kröfur til blaðamanns að hann leggi af barnahjalið þegar hann byrjar að skrifa í fjölmiðil.”

 

UM VEÐUR OG VIND

Sami bréfritari, Sigurður, skrifaði Molum (01.06.2016): ,,Á mbl.is segir í frétt og fyrirsögnin er eins:

Það mun draga nokkuð úr vindi í nótt víða um landið og spá­ir Veður­stof­an suðlægri …

Vindgangur í fjölmiðlafólki er ótrúlegur. Sagt er að annað hvort aukist vindur eða úr honum dragi. Afar sjaldan er þess látið getið að vind lægi, hvað þá að hann hvessi. Í þessu tilfelli hefði farið betur á því að segja: Í nótt mun lægja víða um land og spáir Veðurstofan suðlægri … Fjölmiðlamenn verða að búa yfir ríkulegum orðaforða og nota hann óspart.

 

Notkun á aukafrumlagi hefur aukist mikið á undanförnum árum. Varla er hægt að lesa fréttir eða greinar fyrir þessum leiðindum. Nær annar hver maður skrifar: Það er gaman … Það gerðist í gær … Það varð slys … Aukafrumlag má kalla letiorð, dregur úr máltilfinningu og gerir texta leiðinlegan og ljótan. Hins vegar eru ekki allir á þessari skoðun, það viðurkenni ég. Hins vegar er best að nota aukafrumlag í hófi, rétt eins og allt annað.”- Kærar þakkir fyrir bréfin tvö, Sigurður.

 

 

EKKI TIL FYRIRMYNDAR

Eftirfarandi er úr frétt á visir.is (31.05.2016). Þetta er ekki til fyrirmyndar. Enginn les yfir. ,, Til stendur að kaupa reksturinn og með í kaupunum fylgir leigusamningur sem er eftirsóknarverður, því leigan á húsnæðinu, gömlu Rúblunni við Laugaveginn, hefur ekki verið hár. Hins vegar er viðbúið að hann hækki verulega en samkvæmt heimildum Vísis rennur hann út eftir um það bil ár. Á þessu stigi liggur ekki fyrir hvaða rekstur Björn Ingi og félagar hans ætla í húsinu, en eins og áður sagði eru samningar ekki frágengnir”.

http://www.visir.is/bjorn-ingi-visar-thvi-a-bug-ad-hafa-att-vid-boksolulista/article/2016160539815

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>