BEITUR
Fyrirsögn úr Morgunblaðinu (01.06.2016): Sjö metra hákarl skorinn í beitu. Málkennd Molaskrifara segir honum, að hér hefði átt að segja að sjömetra hákarl hefði verið skorinn í beitur. Þar var ekki ætlunin að nota hákarlinn til beitu, sem agn fyrir fiska. Hann var skorinn í beitur til verkunar og átu, – bragðast vonandi vel á þorrablótum, þegar þar að kemur. Raunar finnst Molaskrifara að ekki þurfi þorrablót til að gæða sér á hákarli. Orðabókin segir: beita, flt. beitur, stykki af hákarli, hert eða til upphengingar.
UM LIMLESTINGAR
S. skrifaði Molum (31.05.2016). Hann vísar til þessarar fréttar á mbl.is:
http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/05/31/lest_vid_kynfaeralimlestingu/
Hann segir:,,Mér finnst ekki rétt orðaval að nota orðið limlesting í sambandi við aðgerð á sjúkrahúsi, hvort sem um löglega eða ólöglega aðgerð sé að ræða. Auðvitað er eðli aðgerðarinnar limlesting. En íslenzkan á gamalt og gott orð yfir það líffæri, sem aðgerðin beinist að, og er það orðið snípur.
Forhúð og snípur eru líffæri“ sem bundin eru við getnaðarfæri og af einhverjum ástæðum hefur trúarbrögðum þótt sæma að beina spjótum sínum að þeim. Ungir drengir eru umskornir og það er umskurn. Væri ekki hægt að kalla þessa umtöluðu aðgerð í fréttinni snípaskurn? Kannski er annað orð til fyrir þetta fyrirbæri, en það orð þekki ég ekki. En auðvitað er þetta limlesting. Enginn efi um það.” Þakka S. bréfið.
TAKA ÞÁTT Á
Í íþróttafréttum Ríkissjónvarps (01.06.2016) var sagt: ,,.. taka þátt á sínu öðru Evrópumóti í röð ...”. Þetta hefur svo sem heyrst áður. Lönd eða lið taka ekki þátt á mótum. Við tölum um að taka þátt í einhverju, – taka þátt í móti.
Í íþróttafréttum Söðvar tvö (04.06.2016) var sagt : ,, … var boðin þátttaka á mótinu …” Eru Molalesendur sáttir við þetta orðlag? Þetta hefur reyndar oft verið nefnt á þessum síðum. Er þetta jafngilt orðalag?
HVAR?
Sveinn skrifaði (01.06.2016): Sæll Eiður, þakka þér fyrir góða pistla. Rakst á þessa frétt Pressunnar í kvöld og ákvað að benda þér á hana einnig. Mér finnst nefnilega eins og blaðamaður hafi gleymt að taka fram hvort atvik hafi gerst í Reykjavík eða á Akureyri, kannski annars staðar á landinu.
Það er alla vega ekkert í fréttinni sem bendir til annars en að um frétt af innlendum vettvangi sé að ræða.
Eins þykir mér ólíklegt að hún verði ákærð fyrir kynferðislega áreitni, ætli það verði nú ekki frekar fyrir barnaníð.
http://www.pressan.is/Frettir/Lesafrett/vard-olett-eftir-13-ara-gamlan-nemanda-med-fullan-studning-fjolskyldunnar
Þakka bréfið, Sveinn. Þetta eru ekki vönduð vinnubrögð.
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar