Glöggur hlustandi gerði athugasemdir við málfar íþróttafréttamanna, sem oft niðra lið sem tapa með orðalagi eins að liðið hafi verið svínburstað eða niðurlægt ef munurinn á frammistöðu liðanna er mikill. Ekki er þetta hinn sanni íþrótttaandi , sagði þessi vinur minn. Það er hárrétt. Það er nóg að segja að lið hafi sigrað, unnið tapað eða beðið lægri hlut eftir atvikum.
Nýlega heyrði Molaskrifari sagt í íþróttafréttum RÚV að deildin hefði byrjað. Þetta er málleysa. Ekki kann Molaskrifari heldur við það þegar talað er um að gera stig. Amböguflóði íþróttafréttamanns RÚV í fréttum í kvöld (18.10.2009) verða gerð skil hér síðar.
Það er verið að skrökva að hlustendum þegar Útvarp Saga segist vera að gera eða hafa gert skoðanakannanir. Það er hárrétt sem Guðmundur Ólafsson hagfræðingur benti nýlega á (16.10.2009) í þætti í Útvarpi Sögu þá er það sem stjórnendur stöðvarinnar kalla skoðanakannanir, bara samkvæmisleikir. Þessi orðnotkun er því bull.
Í Bændablaðinu (08.10.2009) segir: … og var þessum viðburði gerð góð skil í 15. tölublaði Bændablaðsins. Skil er fleirtöluorð. Þessvegna ætti að standa: …. og voru þessum viðburði gerð góð skil…
Úr Vefvísi (16.10.2009). Dómsmálaráðuneytinu barst framsalsgögn frá brasilískum stjórnvöldum vegna Hosmany í byrjun september. Gögn er fleirtöluorð.. Þarna ætti því að standa: Dómsmálaráðuneytinu bárust framsalsgögn frá.
Bíll fór út af veginum á Reykjanesbraut var sagt í tíu fréttum RÚV (16.10.2009). Fór ekki bíllinn útaf Reykjanesbraut? Er vegur á Reykjanesbraut ? Vinur minn, gamall vestur íslenskur um nírætt sagði við mig er við vorum á ferð í Norður Dakota og ókum af malbikuðum vegi inn á malarveg: Nú förum við inn á mölbraut,. Það þótti mér gott.
Óskiljanleg setning var í hádegisfréttum RÚV (16.10.2009) um könnun (alvöru) Fréttablaðsins á fylgi stjórnmálaflokka. Þá sagði einn besti og reyndast fréttaþulur RÚV: Formaður Samfylkingar og Framsóknarflokks stendur nánast í stað. Þarna hefur átt að segja fylgi, en ekki formaður. Það er hættulegt, þegar þulir óvart hætta að að hlusta á það sem þeir eru að lesa. Molaskrifari veit af eigin reynslu að auðvelt er að falla í þá gryfju.
Í fréttum RÚV sjónvarps (16.09.2009) var talað um enn brýnari þörf. Orðmyndin brýnari er ekki til íslensku máli. Þarna átti fréttamaður að segja : …enn brýnni þörf. Kannski má reyndar kalla þann sem hefur atvinnu af því að brýna hnífa og skæri brýnara!
Við munum áfrýja þessum dóm, sagði lögmaður, sem hefur á lag á að komast oft í fjölmiðla, í fréttum Stöðvar tvö (16.10.2009). Hann var að fjalla um dóm yfir handrukkara og ofbeldismanni sem var skjólstæðingur hans. Handrukkarinn hafði lamið mann í klessu .Árásin var mynduðog sýnd í sjónvarpi. Lögmaðurinn hefði átt að segja: Við munum áfrýja þessum dómi. Dómur,dóm,dómi,dóms. Skrítið að lögmaður skuli ekki ráða við að beygja þetta orð.
Nokkrir lesendur þessara Mola hafa orðað það að betra væri að nota ekki rómverskar tölur um Molaröðina heldur þær tölur sem við erum vönust, þ.e. arabískar. Svo verður framvegis.
1 athugasemd
Ekkert ping ennþá
Eiður Svanberg Guðnason skrifar:
18/10/2009 at 22:52 (UTC 0)
Leiðrétting: Hér að ofan ætti að standa .. niðra liðum. Sögnina að niðra tekur með sér þágufall, segir orðabókin.