GRÁTVEGGURINN
Í fréttum Ríkisútvarpsins kl. 16 00 á mánudag (27.006.2016) var talað um helgistað Gyðinga í Jerúsalem, grátvegginn. Nú hefur það verið föst málvenja í íslensku í áratugi, ef ekki aldir, að tala um grátmúrinn, EKKI grátvegginn. Þetta er álíka og ef allt í einu væri farið að tala um Kínavegginn, ekki Kínamúrinn. Mikilvægt er að einhver fullorðinn lesi fréttahandritin yfir áður en fréttirnar eru lesnar fyrir okkur.
KOSIÐ TIL FORSETA
Í Fréttablaðinu, bls. 50 á kjördag (25.06.2016) stóð: Í dag er kosið til forseta og það ….. Það er ekki kosið til forseta. Þetta orðalag er miður gott. Þarna hefði átt að standa, til dæmis: Í dag kjósum við forseta. Í dag eru forsetakosningar.
.
VELFERÐARMÁL
Ritvillur á auglýsingaskiltum eru hvimleiðar. Árum saman hefur blasað við viðskiptavinum Bónusverslananna, sumra hverra, að minnsta kosti, stórt auglýsingaskilti. Þar sem segir að hagnaði af sölu plastburðarpoka sé varið til velferðamála. Það á að vera til velferðarmála. Skærgulu Bónuspokarnir eru annars skelfileg umhverfismengun. Stinga í augu í guðs grænni náttúrunni ótrúlega víða um landið.
HAPPY HOUR
Hversvegna auglýsa veitingastaðir það sem þeir kalla Happy hour, stundarkorn síðdegis, þegar áfengi er selt á lægra verði en venjulega? Hversvegna ekki kalla þetta Gleðistund, eða Vinafund, Vinastund?
DROPINN HOLAR STEININN
Sigurður Sigurðarson nefndi í bréfi til Molaskrifara fyrir nokkru að við værum sífellt að minna á sömu hlutina. Það er mikið rétt. Sigurður sagði: ,, Þú og margt gott fólk er stöðugt að benda á það sem miður fer. Vandinn er að þeir sem eiga að taka mark á leiðbeiningum hlusta ekki og þeir sem eiga að stjórna þeim sem gera vitleysur leiðbeina ekki. Smám saman verður til þol og málið breytist hægt og hljótt. Og viðmælendur og álitsgjafar tala um „substance“ í kosningabaráttu, geta ekki komið frá sér óbrenglaðri hugsun án þess að sletta. Af þeim fjórum efstu frambjóðendum til forseta heyrði ég ekkert þeirra sletta, nema gera grein fyrir því um leið. Álitsgjafarnir eru hins vegar fleiri og á þá er hlustað”. Þetta rétt, Sigurður. Þakka þér öll bréfin. Við höldum ótrauðir áfram í þeirri vissu að dropinn holar steininn.
TAKK!
Takk fyrir Íslendingaþáttinn um dr. Kristján Eldjárn , Andrés Indriðason, sem var á dagskrá Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi (29.06.2016). Þetta rifjaði margt upp hjá gömlum fréttamanni, sem varð ánægjulega hissa á því hve mikið er til af gömlum heimildamyndum/fréttum í Gullkistu Ríkisútvarpsins. Of mörgu var þó fargað á árum áður vegna naumra fjárráða. Það kostaði að geyma efni og myndböndin voru rándýr lengi framan af. Samt á Ríkisútvarpið mikið af ómetanlegu myndefni, – þar er þjóðarsagan. Kappkosta þarf að varðveita þetta efni þannig að tímans tönn vinni ekki á því. Það kostar fé, en þar má ekki spara því þarna eru dýrgripir sem ekki verða metnir til fjár. Það ættu ráðamenn að hafa hugfast.
Margar minningar kviknuðu, þegar horft var á þetta efni frá upphafsárunum. Molaskrifari þykist viss um að margir áhorfendur hafi notið þessa ferðalags til liðins tíma. Vonandi fáum við að sjá meira af svipuðum toga á næstu mánuðum og misserum. Enn og aftur , – takk fyrir vel unninn og eftirminnilegan þátt.
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fasbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar