MAGNIÐ
Sigurður Sigurðarson skrifaði : ,,Sæll,
Í Morgunblaðinu 30. júní 2016 bls. 23 er falleg mynd og undir henni er sagt frá stíflu og lóni í Kína. Þar segir meðal annars:
Mikið magn af botnfalli getur aukið líkur á flóðum og er þessi aðgerð því framkvæmd á hverju ári.
Þegar ofangreint er þýtt á íslensku verður merkingin þessi: Mikið botnfall getur valdið flóðum og er þetta því gert árlega. Ritstjórn Moggans er eindregið hvött til að láta þýðingu á hnökralausa íslensku fylgja með svona texta til að spara lesendum ómakið og auka skilning þeirra svo ekki sé nú talað um góð áhrif sem slíkt getur haft á unga og óharðnaða lesendur.” – Kærar þakkir, Sigurður.
AÐ ÍLENGJAST
Molavin skrifaði á miðvikudag: ,, Erlendar rútur ílengjast án leyfis“ segir í fyrirsögn á fréttasíðu Ríkisútvarpsins í dag, 29.6.2016. Auðvitað lengjast rútur ekkert við komu til landsins, en þær ílendast. Rúnar Snær Reynisson skrifaði þetta. Það vantar fullorðna til að lesa yfir og leiðbeina úr því skólarnir standa sig ekki. – Þakka bréfið, Molavin.
ÍRASKUR
Molalesandi skrifaði (28.06.2016): ,,Góðan daginn . Á forsíðu mbl.is er fyrirsögn um íranska hælisleitendur, sem lögreglan sótti í Laugarneskirkju í nótt. Þegar farið er að lesa fréttina kemur í ljós að mennirnir eru frá S-Írak (Mesópótamíu), en alls ekki Íran (Persíu).
Það eru nú eiginlega lágmarkskröfur til þeirra sem skrifa fréttir Moggans að rugla ekki saman löndum. Það er ekki stríð í Íran.”
Þakka bréfið. Fyrirsögninni var fljótlega breytt. Það er eins og sá litli yfirlestur sem er til staðar eigi sér fyrst stað eftir birtingu. Í upphafi fréttarinnar stóð hinsvegar óleiðrétt: ,, Írösku hælisleitendurnir ….
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/06/28/dregnir_ut_ur_kirkjunni_i_nott/ Íröksku hælisleitendurnir , hefði það átt að vera. Þakka bréfið.
AÐ TAKA ÞÁTT Á
Enn einu sinni. Enn einu sinni var okkur sagt í íþróttafréttum Ríkissjónvarps að frægir iðkendur tiltekinnar íþróttagreinar, golfíþróttarinnar, ætluðu ekki að taka þátt á Ólympíuleikunum í Ríó. Þetta heyrist nokkuð oft. Hvað segir málfarsráðunautur? Tökum við ekki þátt í íþróttamóti? Tökum við þátt á móti?
TÆKNIKLÚÐUR
Hlé varð á útsendingu vegna bilunar eða tækniklúðurs í upphafi veðurfrétta í Ríkissjónvarpi (29.06.2016). Slíkt getur auðvitað alltaf gerst. En það er ekki boðlegt Ríkissjónvarpi að þulur skuli ekki vera tiltækur, þyrfti ekki að sjást, bara heyrast, til að skýra og afsaka svona hnökra. Það er eiginlega til skammar. Allar dagskrárkynningar í sjónvarpi koma úr niðursuðudósum. Eða þannig. Því þarf að breyta.
AÐ SIGRA KOSNINGAR
Á kjördag (25.006.2016) spurði fréttamaður Bylgjunnar forsetaframbjóðanda: Ertu bjartsýn á að þú getir sigrað þessar kosningar? Fréttamaðurinn ætti að vita, að það sigrar enginn kosningar, það sigrar enginn keppni. Þeir sem bjóða sig fram stefna að því að vinna sigur í kosningum. Þeir sem taka þátt í keppni stefna á sigur, stefna að því að vinna sigur.
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fasbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar