Í Morgunblaðinu segir (23.10.2009): Eiginfjárhlutfall Byrs sparisjóðs er langt undir leyfilegum mörkum eða á bilinu 2-3% samkvæmt heimildum Morgunblaðsins. Hlutfallið þarf að vera a.m.k. 8% samkvæmt lögum….. Er ekki kominn tími að þetta fyrirtæki hætti að bulla í auglýsingum um eitthvað sem það kallar fjárhagslega heilsu? Fyrirtækið er meira en lítið heilsutæpt og er þá vægt til orða tekið.
Dæmi um afar vandaða fréttamennsku er að finna á bls. 2 í Morgunblaðinu (23.10..2009) þar sem fullyrt er að sala stærsta eigenda Morgunblaðsins á milljarðahlut í Glitni á síðasta vinnudegi fyrir hrun hafi verið fullkomlega eðlileg. Eigandinn var einstaklega heppinn með tímasetningu sölunnar. Hver trúir Mogga, þegar hann skrifar svona fallega um aðaleiganda sinn? Málið er í rannsókn hjá Fjármálaeftirlitinu. Einhverjar ástæður hljóta vera fyrir því.
Molaskrifari veltir því fyrir sér hvort fjölmiðlum sé illa við þingmanninn Tryggva Þór Herbertsson. Fyrst eru birtar í sjónvarpi myndir af honum að tala í farsíma á þingfundi. Svo birtir Morgunblaðið mynd af honum geispandi í þingsal og daginn eftir birtir Moggi mynd þar sem verið er að bólusetja þingmanninn gegn svínaflensu og grettir sig eins og smákrakki. Maður næstum heyrir hann hrína. Næst verður líklega birt mynd af honum þar sem hann er að bora í nefið á sér. Þess verður líklega ekki langt að bíða. Auðvitað verður að bólusetja þingmenn, sérstaklega þingmenn stjórnarandstöðuflokkanna þeir eru nefnilega með undirliggjandi sjúkdóma, sem heita, lýðskrum,tvískinnungur og hræsni. Ekki er hinsvegar talið að bólusetning bæti gullfiskaminni.
Skrambi getur bloggið hans Jónasar Kristjánssonar annars verið gott, þegar hann er ekki of orðljótur. Annars er þegar búið að benda mér á eina villu í frásögnum af efni bókari hans. Vona hans vegna að þær séu ekki fleiri.
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Gústaf Hannibal skrifar:
04/11/2009 at 09:37 (UTC 0)
Það var reyndar ekki svínaflensan sem Tryggvi var að fá bólusetningu við, eins og kom fram síðar.
Rétt skal vera rétt.
Steini Briem skrifar:
25/10/2009 at 09:04 (UTC 0)
Gríðar svínagrettur,
gaurinn bólusettur,
Boris er nú Borínef,
buxur sýna iðrakvef.