«

»

Molar um málfar og miðla 2016

 

Um sinn verður áfram að birta bréf og ábendingar, sem borist hafa að undanförnu, ásamt með nýju efni.

 

SLÆM ÞÝÐING

Sigurjón Skúlason skrifaði:

,,Heill og sæll Eiður
Þann 4. september, kl. 23:01, birtist frétt á mbl.is undir fyrirsögninni „Skilar orðunni í mótmælaskyni
Þessi svokallaða frétt er svo illa unnin að erfitt er að komast að annarri niðurstöðu en að blaðamaðurinn hafi verið orðinn verulega þreyttur, við skulum allavega vona að það sé niðurstaðan.

Fréttin virðist hafa verið þýdd orð fyrir orð. Blm. fær þó hrós fyrir að láta hlekk á upprunalegu fréttina frá BBC fylgja með svo að lesendur geti lesið almennilega útgáfu af fréttinni.

Fréttin í heild sinni á mbl.is er þess eðlis að það er átakanlegt að lesa hana, skilið var við málvenjur og vandvirkni við vinnslu hennar. Rétt er þó að benda á tvennt verulega kjánalegt í henni. Annars vegar er talað um látinn mann eins og hann sé ennþá á lífi; „Tom Lantos, er fæddur…“ og hins vegar reyndi blaðamaðurinn einungis að þýða nafn heiðursreglu að hluta; „riddarakross reglu Merit“.

Hér er hlekkur á umrædda grein:
http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/09/04/skilar_ordunni_i_motmaelaskyni/

Molaskrifari þakkar Sigurjóni bréfið.

AÐ GERA GOTT …

Í útvarpsauglýsingu um íslenskt grænmeti heyrði skrifari ekki betur en sagt væri (16.09.2016): ,,Gerðu gott við kroppinn, þá gerir kroppurinn vel við þig.” Vonandi var þetta misheyrn. Hafi þetta hins vegar verið rétt heyrt , þá er þetta orðalag, sem ekki hefði átt að heyrast.

 

 

EYRA VANTAÐI

Fyrirsögn af mbl.is : Eyra vantaði eftir líkansárás.

Í fréttinni segir: ,, Til­kynnt var um lík­ams­árás í Hafn­ar­stræti um fjögurleytið ­í nótt. Sam­kvæmt til­kynn­ingu frá lög­regl­unni á höfuðborg­ar­svæðinu var eyra sagt vanta á árás­arþola.”

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/09/04/eyra_vantadi_eftir_likamsaras/

Viðvaningur á vaktinni. Ekki boðleg skrif.

 

AÐ STINGA LÖGREGLUNA

Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (16.09.2016) var sagt um mann sem verið var að handtaka að hann hefði ,,ítrekað reynt að stinga lögregluna”. Þetta er ekki vel orðað. Af réttinni mátti ráða, að maðurinn hefði ítrekað reynt að stinga lögregluþjón eða lögregluþjóna með eggvopni. Greinilega þarf að gera strangari kröfur til þeirra sem flytja okkur fréttir í þjóðarútvarpinu..

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>