VIRKUR BYSSUMAÐUR
Molavin skrifaði (08.09.2016): ,,Fréttabörn leika nú lausum hala á Morgunblaðinu. Í dag (8.9.16) segir í frétt um skotárás í bandarískum skóla að lögreglan leiti nú að „virkum byssumanni“. Í meðfylgjandi myndatexta sést að hér hefur barnið þýtt lögregluhugtakið „active shooter.“ Á mannamáli heitir það að lögreglan leiti að vopnuðum manni.
Þýðingar eru trúlega ekki lengur hluti af tungumálanámi í skólum og nýráðnir blaðamenn notast við „Google-translate.“ Væru yfirmenn fjölmiðla starfi sínu vaxnir myndu þeir kenna nýliðum þau vinnubrögð að þýða erlend hugtök yfir á samsvarandi hugtök á íslenzku máli í stað þess að þýða orð fyrir orð – án þess að hugleiða merkinguna.”
Kærar þakkir, Molavin. Orð í tíma töluð.
ÞEKKINGARSKORTUR
Hér fylgir annað bréf frá Molavin: ,, Þekkingarleysi og kjánaskapur einkenna skrif Morgunblaðsins í vaxandi mæli, og þá er ekki aðeins átt við þá hörmung, sem kallast Smartland. Í gær (8.9.16) hefst frétt mbl.is á þessum orðum: „Sundkappinn Ryan Lochte hefur verið dæmdur í tíu mánaða keppnisbann af bandaríska sundsambandinu eftir hringiðuna sem skapaðist í kringum hann á Ólympíuleikunum í Ríó í síðasta mánuði.“
Umrætt mál fór ekki fyrir dómstóla. Aganefnd bandaríska sundsambandsins setti Lochte í keppnisbann. Honum var bannað að keppa. Hann var ekki dæmdur. Og hvaða „hringiða skapaðist í kring um hann“? Mál sundkappans vakti athygli og olli miklu umróti í fréttum. En það er erfitt að sjá hringiðu í því; varla einu sinni sem líkingamál. Börn, sem ráða ekki við hugtök ættu ekki að skrifa fréttir.”
Þakka bréfið, Molavin. Margt er skrítið í Séð og heyrt deild mbl.is
Þar skortir allan metnað til að gera vel.
MINNI FRÍSTUND
Minni frístund fyrir fatlaða, var undarleg fyrirsögn á skjáborða í fréttatíma Ríkissjónvarps (16.09.2016). Verið var að fjalla um skerta þjónustu Reykjavíkurborgar við fatlaða. Ekki var þó fjárskortur ástæða þjónustuskerðingarinnar. Ekki hafði tekist að ráða fólk til starfa til að sinna þjónustu við fatlaða. Ef til vill vegna lélegra launa.
ENN ER STIGIÐ Á STOKK
Molalesandi benti ná þessa frétt af mbl.is (08.09. 2016) http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/09/08/katt_i_kornum/
Þar segir m.a.:,, Sjálfur stígur Bieber á stokk klukkan 20:30 samkvæmt dagskrá.”. Þegar listamenn flytja tónlist á sviði fyrir áheyrendur stíga þeir ekki á stokk. Talað er um að stíga á stokk og strengja heit, – strengja þess heit, lofa hátíðlega, að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert. Þessa þvælu um að listamenn stígi á stokk heyrum við og lesum hvað eftir annað. Því miður.
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar