ORÐRÓMAR OG AÐ FRJÓSA TIL BANA
Málglöggur lesandi sendi Molum línu (18.12.2016). Hann segir:
„Á mbl.is laugardaginn 17. desember var talað um „orðróma“ ( í fleirtölu.) Er það ekki hreint orðskrípi? Þar var einnig talað um að einhver hefði „frosið til bana“. Segjum við ekki að lengur að „frjósa í hel“? Það þarf að herða róðurinn, Eiður!“ Þakka bréfið. Já oft var þörf að herða róðurinn, er nú er nauðsyn. Orðrómar (fleirtala) finnst mér eins og þér óttalegt orðskrípi, – jafnvel þótt það megi finna í beygingalýsingu íslensks nútímamáls á vef Árnastofnunar. Kannski hefur sá sem talaði um orðróma verið að hráþýða úr ensku , rumours. Sennilega hefur sá sem skrifaði frosið til bana aldrei heyrt talað um eða lesið um að frjósa í hel , eða verða úti. Minnkandi bóklestur kemur meðal annars fram í minni orðaforða.
TENGSL
Rafn skrifaði (16.12.2016) : Sæll Eiður
Eitt hefir löngum ergt mig, en það er sú árátta fréttabarna og annarra, að þegar rætt er um efni tengt öðru efni, þá er orðið tengt oftast haft í þágufalli án tillits til hvaða fall hentar í viðkomandi setningu. Gott dæmi um þetta er í fréttinni hér fyrir neðan, þar sem sagt er: „. . . nemendur seldu í kvöld matarpakka til foreldra og annarra tengdum nemendum . . .“ þar sem rétt væri: „. . . nemendur seldu í kvöld matarpakka til foreldra og annarra tengdra nemendum . . .“
Úr frétt á mbl.is:,, Matráður Réttarholtsskóla og valdir nemendur seldu í kvöld matarpakka til foreldra og annarra tengdum nemendum skólans en ágóðinn mun allur renna til Mæðrastyrksnefndar. Kokkarnir knáu fengu hráefnið gefins frá birgjum skólans og var miðað að því að halda kostnaði í núlli.“
Hann nefnir eftirfarandi : ,, Dæmi:
Það voru foreldrar tengdir nemendum sem ræddu við aðra tengda nemendum og sögðu vinum sínum ótengdum nemendum frá matarpakkasölu til allra, tengdra nemendum jafnt sem ótengdra – Þakka bréfið, Rafn.
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/12/15/eldad_til_styrktar_maedrastyrksnefnd/
KEYPTI UPPLAGIÐ!
Merkileg forsíðufrétt í Fréttatímanum á föstudag (16.12.2016). Fyrirsögnin er: Samherji keypti upplagið. Fréttin hefst á tilvitnun í útgefandann:,,Jú, Samherji keypti upplag af okkur, og ég geri nú ráð fyrir því að þeir gefi bókina í jólagjöf,“ segir útgefandinn Jónas Sigurgeirsson, sem á og rekur útgáfuna Almenna bókafélagið, en Samherji keypti upplag af nýrri bók sagnfræðingsins Björns Jóns Bragasonar; Gjaldeyriseftirlitið – vald án eftirlits?“ – Svo bar útgefandinn þessi ummæli af sér, sem von er, á fésbók á föstudaginn. Fréttin ber með sér, að sá sem skrifaði hana veit ekkert hvað upplag er. Upplag, er eintakafjöldi prentaðs máls, bókar eða blaðs, segir orðabókin. Samherji keypti hluta upplagsins og er talið að þetta vellauðuga fyrirtæki ætli að gefa starfsfólki sínu bókina í jólagjöf. Alltaf er betra að þekkja merkingu orðanna, sem notuð eru í fréttaskrifum.
http://www.frettatiminn.is/samherji-keypti-upplagid/
FRAMLENGING
Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (16.12.2016) var sagt , að til skoðunar væri að framlengja þessu ákvæði ….. (lagaákvæði). Talað er um að framlengja lán, ekki framlengja láni. Þess vegna hefði átt að tala um að framlengja þetta ákvæði. Ekki þessu ákvæði. Hins vegar hefði mátt tala um að framlengja gildistíma þessa ákvæðis. – Enginn les yfir.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar