SLYS
Jakob R. Möller skrifaði Molum (20.12.2016): ,, Heill og sæll,
Nú til dags sýnast hverskyns óhöpp kölluð slys. Var að hlusta á fréttir á Rás 1, þar var ítrekað vísað til „slyssins á Mosfellsheiði“ síðdegis. Ekkert var þó nefnt um það, að nokkur maður hefði meiðzt. Samkvæmt minni málvitund merkir slys, að einhver hafi meiðzt, það er slasast.“ Kærar þakkir, Jakob. Þetta er réttmæt ábending. Nákvæmt orðalag bæætir fréttir. Sem betur fer slasaðist enginn. En manni sýnist, að stundum sé teflt á tvær hættur, þegar veður eru válynd og færð slæm. Þarna skall hurð nærri hælum.
SLETT
Á mánudagsmorgni (19.12.2016) var fjallað um íslenskt mál í morgunútvarpi Rásar tvö. Rætt var um jól og orð tengd jólum. Ágæt umræða. Umsjónarmaður vildi endilega tala um jólalingó. Lingó er ekki íslenska. Málfarsráðunautur reyndi að andmæla, en mátti sín greinilega lítils gegn beittum brotavilja sumra innanhússmanna í Efstaleiti. Umsjónarmaður var ef til vill að reyna að vera fyndinn.
KISTU FLOGIÐ HEIM
Þetta er fyrirsögn af visir.is (20.12.2016):Kistu rússneska sendiherrans flogið heim. Í fréttinni er tvívegis talað um að kistu sendiherrans hafi verið flogið heim. Kista rússneska sendiherrans , sem myrtur var í Ankara, höfuðborg Tyrklands, var flutt með flugvél heim til Rússlands. Molaskrifari kann ekki að meta orðalagið, að kistunni hafi verið flogið. Sjá: http://www.visir.is/kistu-russneska-sendiherrans-flogid-heim/article/2016161229865
JÓLABARN
Nánast allir, sem rætt er við í blöðum fyrir jólin um jólahald og sólasiði, segjast vera mikil jólabörn. Er þetta ekki tiltölulega nýtilkomið orðalag? Man ekki eftir því að þetta hafi verið almennt verið notað hér á árum áðum. Málið tekur sífelldum breytingum. Sumt gleymist fljótt. Annað lifir.
SÓKN ENSKUNNAR
Oft er hér í Molum vikið að miskunnarlausri sókn enskunnar gegn íslenskunni. Íslendingar og íslensk fyrirtæki og þá ekki síst auglýsingastofur leggja enskunni lið. Samanber TAX FREE ( sem er reyndar rangnefni og ósannindi), Black Friday, Sale, og svo framvegis. Í Vestmannaeyjum á nú að stofna brugghús til að brugga öl. Það á auðvitað að heita The Brothers Brewery. Bræður ætla að brugga bjór. Bræðrabrugg er sjálfsagt ekki nógu fínt. Enska skal það vera.
http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2016/12/20/opna_brugghus_og_olstofu_i_vestmannaeyjum/
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar