MÁLSKOT
Ágæt umfjöllun um málið og málnotkun er á mánudögum í morgunútvarpi Rásar tvö, þegar rætt er við Önnu Sigríði Þráinsdóttur, málfarsráðunaut Ríkisútvarpsins . Í þættinum sl. mánudag (16.01.2016) nefndi hún notkun á orðinu umhleypingur , sem er karlkynsorð, oftast notað í fleirtölu um rysjótt tíðarfar. Fyrr í þættinum hafði umsjónarmaður talað um umhleypingarástandið.
Öllu lakara þótti Molaskrifara að heyra, að svo virðist sem málfarsráðunautur , – og þar með kannski Ríkisútvarpið sé að gefast upp í baráttunni gegn margumtalaðri þágufallssýki, – eða þágufallshneigð, eins og sumir málfræðingar segja. – Nú væru meira að segja ráðherrar, ekki bara þingmenn, farnir að segja mér langar. Stór hluti þjóðarinnar tali svona. Það má segja mér langar.
Nokkur huggun er að málfarsráðunautur sagðist ætla að halda áfram að andæfa gegn þágufallshneigðinni , sem birtist til dæmis í mér langar í Efstaleitinu. Þakkir fyrir það´.
http://www.ruv.is/sarpurinn/ras-2/morgunutvarpid/20170116
(1:16:00) Viljum við hafa það þannig, að þegar nógu margir eru farnir að segja sömu vitleysuna þá verði hún rétt og gott mál? Nei, segir Molaskrifari.
VANKUNNÁTTA EÐA HROÐVIRKNI?
Svona hófst frétt á mbl.is (17.01.2017): ,,Grænlenska skipið Polar Nanoq hefur verið snúið við af leið sinni og er nú á leiðinni aftur til Íslands. Samkvæmt upplýsingum frá stjórnarformanni fyrirtækisins Polar Seafood, sem skipið er í eigu, …“ Grænlenska skipið var ekki snúið við. Grænlenska skipinu var snúið við. ,,… stjórnarformanni fyrirtækisins, Polar Seafood,, sem skipið er í eigu! Hér hefði einfaldlega átt að segja ,,….. sem á skipið“. Fleiri athugasemdir mætti gera við þessa stuttu frétt. Þetta eru ekki góð vinnubrögð. Og sem fyrr: Enginn les yfir. Enginn lagar augljósar villur eða leiðbeinir. Slök frammistaða. Vankunnátta? Já. Hroðvirkni? Já.
EKKI GÓÐ FYRIRSÖGN
Svohljóðandi fyrirsögn er á mbl.is (18.01.2017): Togarinn mun koma að höfn í Hafnarfirði.
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2017/01/18/togarinn_mun_koma_ad_hofn_i_hafnarfirdi/
Við tölum ekki um að skip kom að höfn. Skip koma að landi. Við tölum um að skip komi í höfn eða til hafnar. Hér hefði einfaldlega mátt segja: Togarinn kemur til Hafnarfjarðar. Enginn las yfir.
Þetta var ágætlega orðað á visir.is: Grænlenski togarinn leggst að bryggju í Hafnarfjarðarhöfn. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2017/01/18/togarinn_mun_koma_ad_hofn_i_hafnarfirdi/
BJÖRGUNARSVEITIRNAR Í FÆREYJUM
Það er fallega hugsað að styrkja björgunarsveitirnar í Færeyjum, sem munu hafa orðið fyrir tjóni um hátíðarnar er búnaður þeirra laskaðist í vondu veðri. Upphaflega var sagt að safna ætti fé til að styðja Færeyinga, en utanríkisráðherra Færeyja Poul Michelsen sagði utanríkisráðherra okkar Lilju D. Alfreðsdóttur að ekki væri þörf á aðstoð stjórnvalda eins og fram kom á fréttavef Ríkisútvarpsins. Haft er eftir aðstandendum söfnunarinnar, að það sé ekki rétt.
Þetta stangast á. Ekki gott þegar fullyrðing stendur gegn fullyrðingu.
Af fréttavef Ríkisútvarpsins (02.01.2017)
http://www.ruv.is/frett/faereyingar-afthakka-adstod-tjonid-var-tryggt
Mesta tjónið í óveðrinu varð þegar radarhjálmur fauk út í buskann, en það tjón greiða Færeyingar ekki, heldur danska ríkið eða Nató, samkvæmt færeyskum heimildum skrifara.
Molaskrifari er mikill velunnari Færeyinga, en honum sýnist á ýmsu, að hér hafi verið gengið fram af meira kappi en forsjá.
En auðvitað eiga færeyskar björgunarsveitir allt gott skilið.
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
1 athugasemd
Ekkert ping ennþá
Jón skrifar:
18/01/2017 at 18:02 (UTC 1)
„Mér langar“ er lýðræðislega rétt með 60% atkvæða!
Nánar hér
http://www.ruv.is/sarpurinn/ras-1/samfelagid/20170118
byrjar á 26:30