«

»

Molar um málfar og miðla 2096

 

Á TÁNUM

Molavin skrifaði (18.01.2017): ,,Ný mállýska virðist breiðast hratt út með hjálp fjölmiðla og netmiðla. Hún einkennist af samblandi af barnalegu málfari og hráum þýðingum úr ensku. Lítillar mótspyrnu gegn þessu gætir hjá yfirmönnum nefndra miðla. Dæmi um slíkt mátti heyra í Ríkisútvarpinu, Rás 1, í dag 18.01.16, þar sem viðmælandinn, læknir, talaði um mikilvægi þess við greiningu á kvíða að vera á varðbergi. Umsjónarkona þáttarins greip þá fram í fyrir honum og sagði; „sem sagt, að vera á tánum.“ Rétt eins og hún væri að þýða þetta vandræðalega málfar yfir á nútímalegra mál.“

Þetta er góð ábending. Þakka bréfið vin. Molaskrifari hefur lengið látið það fara í taugarnar sér, þegar sífellt er talað um að vera á tánum, – að vera á varðbergi, hafa varann á gagnvart einhverju.

 

LANDSBJÖRG

Slysavarnafélagið Landsbjörg, landssamtök björgunarsveita og slysavarndeilda á Íslandi , kemur eðlilega mikið við sögu í fréttum þessa dagana. Sjaldan hefur hlutverk sveitanna verið sýnilegra og jafn mikilvægt. Oftar en ekki er nafn félagsins rangt beygt í fréttum , – sérstaklega í ljósvakamiðlum. Í beygingu orðsins Landsbjörg  kemur aldrei neitt – u við sögu. Þetta er alveg skýrt á vef Árnastofnunar, sem fréttamenn ættu að nota meira.

http://bin.arnastofnun.is/leit/?q=Landsbj%C3%B6rg

Þar segir um orðið Landsbjörg:

Athugið: Orðið beygist eins og fingurbjörg ekki eins og kvennafnið Ingibjörg.
Það fær ekki endinguna -u í þolfalli og þágufalli.

Landsbjörg, um Landsbjörg frá Landsbjörg til Landsbjargar.

 

NEITA

Í morgunfréttum Ríkisútvarps (18.01.2017) klukkan níu var sagt frá ásökunum kvenna gegn Donald Trump verðandi Bandaríkjaforseta um kynferðislega áreitni. Sagt var: Trump þverneitaði fyrir ásakanir kvennanna. Þetta er miður gott orðalag. Betra hefði verið til dæmis: Trump þverneitaði ásökunum kvennanna. Trump þvertók fyrir að ásakanir kvennanna ættu við rök að styðjast. Sem fyrr: Enginn les yfir.

 

 

 

AFTURFÖR

Þegar dagskrá Ríkissjónvarps á þriðjudagskvöld (17.01.2017) var breytt með nokkrum fyrirvara, var breytingin aðeins kynnt á skjáskilti, ekki með lesnum texta eins og venjulega. Allar dagskrárkynningar sjónvarpsins eru niðursoðnar, teknar upp löngu fyrir fram og ekki tæknileg  geta , eða vilji stjórnenda til staðar til að breyta kynningum um breytta dagskrá. Þetta er óboðlegt. Eins og oft hefur verið nefnt í þessum Molapistlum. Þetta hefði ekki verið óyfirstíganlegt vandamál á upphafsárum sjónvarpsins fyrir meira en 50 árum. Þá hefði þetta verið smámál . En nú er þetta óleysanlegt vandamál! Það er hart að það skuli nú vera Ríkissjónvarpinu ógerlegt, sem var sáraeinfalt fyrir hálfri öld.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>