«

»

Molar um málfar og miðla 2100

HITI

Víðast fjögur til átta stiga hiti á morgun. Þetta las reyndur fréttamaður í lok fjögur frétta á sunnudaginn var (22.01.2017). Heyrði greinilega ekkert athugavert við þetta orðalag, sem hefði átt að vera: Víðast fjögurra til átta stiga hiti á morgun.

 

ORÐTÖK

Í íþróttafréttum Ríkissjónvarps (23.01.2017) var tekið svona til orða: Það þótti þó sæta til stórtíðinda þegar …. Eins og hér hefur oft verið bent á , er betra að kunna að fara rétt með orðtök, eða sleppa notkun þeirra ella. Hér hefði betur verið sagt: Það þótti þó sæta stórtíðindum þegar …

 

UPPSTOPPARI

Í Útsvari (20.01.2017) var sagt í einni spurningunni, ,,…. en sá var uppstoppari að atvinnu.“ Maðurinn var hamskeri. Um það segir orðabókin: – Maður sem stoppar upp hami af dýrum til geymslu. Uppstoppari er svo sem ágætt orð, en hamskeri er það heiti sem lengst hefur verið notað á íslensku um þetta starf.

 

ÓLAG

Verkstjórn á fréttastofu Ríkisútvarpsins er ekki í lagi. Enginn virðist lesa fréttir og fréttapistla yfir áður en lesið er fyrir okkur. Þess vegna heyrum við samskonar ambögur næstum því dag eftir dag, eins og til dæmis  í hádegisfréttum á fimmtudag(19.01.2017): Stór hluti af skýringunni er , að …..

Í hádegisfréttum daginn eftir var talað um ábendingar sem lögreglu hefur borist.

Á laugardagsmorgni (21.01.2017) var bæði í níu fréttum og tíu fréttum sagt um leitina að Birnu Brjánsdóttur: Björgunarsveitunum bíða á þriðja þúsund leitarverkefni. Björgunarsveitanna bíða … Þetta var tvílesið.

Hlustar enginn? Eða heyrir enginn? Veit ekki hvort er verra. Hvernig sleppa svona villur út í loftið og heim til okkar dag eftir dag? Verkstjórn er í ólagi. Það sannaðist líka á sunnudag (22.01.2017), sbr. Mola 2098. Og var enn einu sinni staðfest í kvöldfréttum útvarps (23.01.2017): … samtök sem telja (svo!) næstum fimm þúsund manns hafi ekki verið kunnugt um …  samtökum, sem í eru næstum fimm þúsund manns var ekki kunnugt um  ….    Hvers vegna    les enginn yfir?

 

VÍÐA ER POTTUR BROTINN

Ambögur af sama tagi er víðar að finna en hjá Ríkisútvarpinu. Rafn benti á þessa frétt á mbl.is (23.01.2017): http://www.mbl.is/frettir/erlent/2017/01/23/bjargad_af_everest/

Í fréttinni segir: Spænsk­ur fjall­göngumaður, sem ætlaði sér að kom­ast á topp Ev­erest án súr­efn­is, var bjargað af fjall­inu á föstu­dag

Rafn segir:- Honum bjargað eða hann bjargaður? Var manninum bjargað eða hvað? Þakka ábendinguna, Rafn. Svona villur eru að verða daglegt brauð í fjölmiðlum, sbr. hér að ofan. Hvað veldur? Fáfræði, – hroðvirkni? – Ljóst er að enginn les yfir.

 

STUÐNINGUR VIÐ KONUR

Í fréttum Stöðvar tvö (21.01.2017) var rætt við íslenska konu búsetta í Bandaríkjunum, sem tók þátt í mótmælum í Washington D.C. gegn embættistöku Donalds Trumps. Hún sagðist taka þátt í mótmælunum til að standa upp fyrir konum. Ekki er víst að allir hafi skilið þetta . Hún tók þátt í mótmælunum til stuðnings konum, til að styðja konur. Á ensku: To stand up for women. Enskan var konunni ofarlega í huga. Sem er kannski skiljanlegt.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>