«

»

Molar um málfar og miðla 2101

LEITIR – KRAKKAFRÉTTIR RÍKISSJÓNVARPS

Molavin skrifaði (24.01.2017): ,, Fréttir fyrir börn í Sjónvarpinu (kallaðar því kauðalega nafni Krakkafréttir) hófust í kvöld (24.1.16) á því sem kallað var „leitir að fólki“. Mikilvægt er að RUV vandi mjög til orðalags og málfars í þessum sérstaka fréttatíma fyrir yngstu kynslóðina. Eins og fram kom réttilega í máli viðmælanda er jafnan notað orðið *leit* í eintölu, jafnvel þótt leitað sé að fleirum eða á fleiri svæðum. Þó er fleirtölumynd til, annars vegar þegar talað er um að eitthvað finnist; komi í leitirnar. Eða þegar leit að sauðfé er skipt í svæði.“ Kærar þakkir, Molavin. Mjög mikilvægt er að í þessum þætti fyrir börn sé talað vandað mál. Mér finnst reyndar orka tvímælis að vera með sérstakar fréttir fyrir börn.

 

FRÁFARANDI – FYRRVERANDI

Ragnar Torfi skrifaði Molum (25.01.2017): ,,Sæll Eiður

Í fréttum Ríkisútvarpsins klukkan 16:00 í gær var fyrsta frétt um athugasemd sem Sigurður Ingi Jóhannsson hafði um ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar.

Í fréttinni var Sigurður sagður fráfarandi forsætisráðherra.

 

Minn málskilningur er að Sigurður sé fyrrverandi forsætisráðherra, hann hætti að vera fráfarandi um leið og fyrsti ríkisráðsfundur var haldinn með Guðna forseta og nýju ríkisstjórninni.

 

Þessi frétt var síðan sett inn á vef ruv.is klukkan 16:09 og stendur enn.“

Þakka bréfið, Ragnar Torfi. Ég skil þetta alveg á sama veg og þú.

http://ruv.is/frett/taepur-meirihluti-kalli-a-meiri-samvinnu

 

 

VEGNA …

Við segjum vegna einhvers. Æ algengara er að heyra sagt: … vegna uppbyggingu. Umhverfisráðherra notaði þetta orðalag í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra á þriðjudagskvöld (24.01.2017). Vegna uppbyggingar á það að vera.

 

 

 

LEIKARASKAPUR

Ósköp er það kjánalegt í frétt um loftslagsbreytingar, hlýnun jarðar, að fréttamaður Ríkissjónvarps, skuli láta mynda sig berleggjaða sitjandi á bryggju með fæturna í sjónum eins og við sáum í kvöldfréttum (24.01.2017). Leikaraskapur á ekki heima í fréttum.

 

DÝR DREPAST

Það hefur lengi verið málvenja í íslensku að tala um að dýr drepist. Talað er um að fólk látist, andist eða falli frá. Nú er að verða æ algengara að sagt sé að dýr hafi látist eða andast. Á fasbók var nýlega skrifað um hund. ,,Nú í dag fannst Tinna okk­ar því miður lát­in við smá­báta­höfn­ina í Kefla­vík. …. hún verið sett und­ir u.þ.b. 10 kg grjót og er greini­legt að and­lát henn­ar sé af manna­völd­um“ . Þessi breyting er andstæð rótgróinni málvenju, en endurspeglar þá staðreynd að margir líta á gæludýr sem hluta af fjölskyldunni og er sjálfsagt hluti af eðlilegri þróun málsins.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>