«

»

Styrmir og Hallgrímur

Margt athyglisvert kom fram í fróðlegu og skemmtilegu samtali þeirra Styrmis Gunnarssonar og Hallgríms Thorsteinssonar í þættinum „Í vikulokin“ á Rás eitt (21.11.2009). Eitt var þó skrítið við umræðuna: Ekki var minnst einu orði á hvernig staðið var að einkavæðingu bankanna, en þar er rótin að því hversu illa fór og hve fáir menn gátu sett íslenska þjóðfélagið á hliðina. Við komumst aldrei framhjá þeirri staðreynd að hin pólitísku helmingaskipti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks um að afhenda ríkisbankana sérvöldum skjólstæðingum sínum eru ein megin orsök hrunsins á Íslandi.

  Þegar Styrmir  Gunnarsson ber   ráðningu Davíðs Oddssonar í Seðlabankann  saman  við  ráðningu Geirs Hallgrímssonar, Steingríms Hermannssonar, Tómasar Árnasonar, Jóns Sigurðssonar og Finns Ingólfssonar og segir  að þar hafi menn bara verið að fylgja hefð, er það ekki rétt nema að mjög litlu leiti. Enginn þessara manna var  umdeildur  neitt í líkingu við   Davíð Oddsson. Enginn. Það reyndi ekki á neinn þeirra að marki, því  við sigldum lygnan sjó.  Jón Sigurðsson hafði bankareynslu (hafði lengi setið í bankaráði  Norræna  fjárfestingabankans og verið fulltrúi  Norðurlandanna hjá  Alþjóðabankanum) og  fór úr  Seðlabankanum til að  stýra  einum öflugasta banka  Norðurlanda , Norræna  fjárfestingarbankanum.Aldrei hefur heyrst nein  gagnrýni á  störf  hans á þeim vettvangi. Þessi rökstuðningur Styrmis  styðst ekki við rök , þegar betur er að gáð.

 Styrmir tók Hallgrím hressilega á beinið fyrir að  sjá ekkert nema  Davíð Oddsson í þessari umræðu. En fjölmiðlamönnum er nokkur vorkunn  því  Davíð Oddsson er  svo  sterkur persónuleiki að hvar sem hann fer eða  er  snýst umræðan um  hann. Davíð verður af sjálfu sér miðpunkturinn , meira en  nokkur annar maður sem ég þekki. Það er bara þannig.

 Það er rétt hjá Styrmi  að návígið og  smæðin eru  meðal  helstu vandamála  okkar, en ekki nauðvelt að komast undan þeim. Það er hinsvegar grundvallarmisskilningur að almenningur hafi nú aðgang að öllum sömu upplýsingum og  kjörnir  fulltrúar. Þjóðaratkvæðagreiðslur   eru  ágætar um   afmörkuð  og  skýr efni. Það er bara bull að vera með þjóðaratkvæðagreiðslur um  mál sem   almenningur hefur  takmarkaða möguleika á að taka  upplýstar ákvarðanir um.

 Ágætur fulltrúi utanríkisráðuneytisins átti hinsvegar lítið  erindi í  umræðuna um þessi  mál. Eins og  hún sagði sjálf. Hún  tók hinsvegar  ágætlega upp hanskann fyrir  starfsmenn utanríkisþjónustunnar. Auðvitað á að  spara og  gæta aðhalds í  utanríkisþjónustunni eins og  annarsstaðar. En við  verðum  líka að halda reisn okkar og vera þjóð meðal þjóða. Það er hægt   að gera án þess að bruðla. Það er mikill misskilningur að Internetið geti komið í staðinn  fyrir sendiráð. Það er gott hjálpartæki en kemur aldrei í staðinn fyrir fólk.

Hlakka til að lesa bók Styrmis.

PS Það  er svolítið  skemmtilegt að gömlu vinirnir og  skólabræðurnir Styrmir og Ragnar Arnalds skuli vera orðnir pólitískir samherjar á efri árum í andstöðunni við inngöngu Íslands í ESB!

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Sigurður Sigurðsson skrifar:

    Merkilegt hvað þú skautar yfir EES væðinguna sem átti sér stað, að mig minnir, á þinni vakt.  Enda eðlilegt að þið kratar viljið sem minnst um hana tala, sennilega er hún einn af þeim þáttum sem leiddu til hrunsins á endanum. 

    En að Jóni Sigurðssyni, eðalkrata og samflokksmanni og samstarfsmanni þínum til langst tíma: Eiður,  ber hann  nú ekki svolitla ábyrgð sem bankaráðsmaður Seðlabankans og stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins á þeim tíma sem hrunið verður ?? Mun það koma í ljós að hann og fleiri hafi jafn kröftuglega varað við því ástandi sem upp var komið eins og Davíð ??

    Hvernig væri nú að þú bloggaðir aðeins um ábyrgð hans, svo ég tali nú ekki um samstarfið á sínum tíma við Jón Baldvin, ekki var það nú gæfulegt fyrir mann að sjá þann mann eitt kvöldið,  starfandi utanríkisráðherra, í kappdrykkju fyrir utan Naustkjallarann á sínum tíma, tala nú ekki um þegar hann henti bjórkrúsinni afturfyrir sig svo að hún splundraðist á Vesturgötunni ??

    Hvernig væri að þú upplýstir okkur aðeins um innanbúðarmál ykkar kratanna á sínum tíma og létir af þessari þráhyggju þinni gagnvart Davíð Oddssyni, sem er þó sá stjórnmálamaður sem gersamlega ber af í okkar samtímasögu, og þá sérstaklega í samanburði við ykkur smápeðin, samferðamenn hans á sínum tíma !!!

  2. Haukur Kristinsson skrifar:

    Algjörlega ósammála því að Davið Oddsson séu sterkur persónuleiki. Ef hann skyldi verða miðpunkturinn í hverri umræðu, þá er er það mikið „Armutszeugnis“ fyrir þá hina sem viðstaddir eru.

    Er staddur erlendis og er að lesa bókina „Män som hatar kvinnor“, eftir Stieg Larsson á þýsku. Þar er lýsing á Lisbeth Salander sem mér virðist smellpassa fyrir Davíð Oddsson.

    Mangel an Emphatie, egoistisch, psychopathisches und asoziales Verhalten, Schwierigkeiten bei der sozialen Zusammenarbeit und Lernunfähigkeit.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>