«

»

Molar um málfar og miðla 204

 

  Úr vefmogga (18.11.2009): Forvarsmenn bandaríska álrisans Century Aluminum segja að stefnt sé að því að hefja fullar framkvæmdir við álverið í Helguvík. Fullar framkvæmdir ?  Af hverju nægði ekki að segja: .. að hefja framkvæmdir ? 

Meira úr vefmogga (19.11.2009): Eftirfarandi er úr frétt um nýjan utanríkisstjóra ESB: Hún var stjórnarformaður heilbrigðisyfirvalda í sýslu einni frá 1998 til 2001. Hverju erum við nær ?  Þessi frétt er annars með ólíkindum illa skrifuð og hefur viðvaningur greinilega haldið hér á penna. 

  Sérkennilegt var heyra háskólaprófessor (Spegillinn,  RÚV 19.11.2009) tala um tvö áhrif.  Eðlilegra og réttara hefði verið að  tala um tvennskonar áhrif.  

 

Íþróttafréttamaður RÚV (19.11.2009) talaði um að innbyrða þriggja stiga sigur. Alveg nýtt fyrir Molaskrifara að hægt sé að innbyrða sigur. 

 

Kristján Már Unnarsson fréttamaður Stöðvar tvö á hrós skilið fyrir að vera fundvís á áhugaverðar fréttar utan  höfuðborgarsvæðisins. Hann hefur líka staðið sig vel í að fjalla um olíuleit og orkumál á norðurslóðum. Kristján Már er naskur með næmt fréttanef. 

 

Það er heldur leiðigjarnt að vera sífellt að nöldra um það sama. Enn heldur Ríkisútvarpið , þessi stofnun sem við eigum öll, áfram að brjóta landslög með því að auglýsa áfengi. Tvær bjórauglýsingar fyrir tíu fréttir (19.11.2009) og ein eftir fréttir. Makalaust er að enginn þingmaður skuli hafa döngun í sér til að taka þetta mál upp á Alþingi. Fyrir rúmlega hálfum mánuði sendi Molaskrifari menntamálaráðherra, formanni stjórnar RÚV og varaformanni stjórnar RÚV bréf  um áfengisauglýsingarnar, sem RÚV hellir yfir okkur á hverju kvöldi. Svör hafa ekki borist. Koma vonandi með jólapóstinum, –  í síðasta lagi.

 

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður Svanberg Guðnason skrifar:

     Já, Tryygvi. Sitt sýnist hverjum. Það væri lítið gaman ef allir væru sammála. Varðandi áfengisauglýsingarnar, þá  á annaðhvort að leyfa þær, sem ég er ekki hrifinn af, en er auðvitað hreinlegast, eða gera bannið ótvírætt.  Það er sjálfsagt erfitt að setja  reglur um það sem menn finna  ekki leið framhjá. Núverandi ástand er hinsvegar óviðunandi.

    B kv  Eiður

  2. Tryggvi Hübner skrifar:

    Sæll

    Ég er sammála þér um ýmislegt. En mér finnst ekkert athugavert við það að tala um að innbyrða þriggja stiga sigur. Það má alveg líkja baráttu í leik við það að innbyrða fisk, þetta er barátta þar sem annar aðilinn hefur sigur að lokum, yfirleitt er það maðurinn, örsjaldan fiskurinn. 3 stig í höfn hjá sigurliðinu.

    Bjórauglýsingarnar eru hvimleiðar og ágætt dæmi um það hvernig reglur um eitt og annað hér á landi virðast  hafðar upp á punt og til „viðmiðunar“ fremur en til að farið sé eftir þeim. Ég er sjálfur hlynntur því að leyfa áfengisauglýsingar. En eins og þetta er núna er stöðugt verið að auglýsa „léttöl“ , sem hvergi er til í verslunum.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>