«

»

Molar um málfar og miðla 207

   Í fréttum Stöðvar tvö (22.11.2009) var sagt: Hún segir algengt að menn sem grunaðir séu um nauðgun sé sleppt. Fréttamaðurinn hefði átt að segja: .. að mönnum sem grunaðir séu um nauðgun sé sleppt.

 

  Oft er ástæða til að gera athugasemdir við málfar í auglýsingum.Í Útvarpi Sögu glymja nú auglýsingar um meltingarlyf sem er að hjálpa mörgum og  nafngreindan gullsmið sem er að kaupa gull.  Betur  færi á að tala um lyf sem hjálpar mörgum og  gullsmið sem kaupir gull…. ekkert er að… sem alltof algengt er að heyra tönnlast á. Þá er í sama miðli auglýsing um einhverskonar Kínalífselexír, lyf sem sagt er að  talið sé allra meina bót. Gæti líklega haft verulegan sparnað í för með sér í heilbrigðiskerfinu, ef satt er ! 

 

Umsjónarmenn Morgunvaktar Rásar tvö hjá RÚV halda áfram að bjóða hlustendum upp á gullaldarmálfar. Í morgun (24.11.2009) var sagt: … og ef maður er böstaður… Átt var við það ef maður væri staðinn að verki við að setja í heimildarleysi litaða olíu á eldsneytisgeymi bifreiðar, – olíu sem ætluð er fyrir  vinnuvélar. Fólk sem svona tekur til orða á ekkert erindi að hljóðnemunum í Efstaleitinu.

 

 Molaskrifari tekur undir með Eiríki Jónssyni, sem  gerir að umtalsefni hið hlægilega ráp  sumra sjónvarpsfréttamanna  fyrir framan myndavélina. Ef þeir halda, að þjóðinni þyki þetta fagmannlegt og flott, þá er Molaskrifari næsta viss að þeir hafa rangt fyrir sér. Þetta er fyrst og fremst hallærislegt og tilgangslaust og dregur athyglina frá því sem verið er að segja og beinir henni að fréttamanninum, sem er líklega tilgangurinn. En í öllum fréttum er fréttamaðurinn aukaatriði. Þá staðreynd skilja ekki allir í Efstaleiti.

 

Netmiðillinn visir.is segir í fyrirsögn (24.11.2009): Lögmanni Baldurs ofbýður vinnubrögð sérstaks saksóknara. Hér er þess að gæta að orðið vinnubrögð er fleirtöluorð, – ekki til í eintölu. Þess vegna hefði fyrirsögnin átt að vera: Lögmanni Baldurs ofbjóða vinnubrögð sérstaks saksóknara. Ef um hefði verið að ræða framkomu sérstaks saksóknara hefði verið rétt að segja: …ofbýður framkoma sérstaks saksóknara vegna þess að  framkoma er eintöluorð og ekki til í fleirtölu. 

 Úr sama netmiðli , sama dag: Benedikta Jónsdóttir, heilsuráðgjafi, segist aldrei hafa liðið betur… Sá sem þetta skrifar er reyndar samkvæmur sjálfum sér, því hann segir líka: Benedikta segist alltaf hafa verið umhugað um heilsuna. Hér segir Molaskrifari, að betur hefði farið á því að segja: Benedikta Jónsdóttir segir að sér hafi aldrei liðið betur, og: Benedikta segir að sér hafi alltaf verið umhugað um heilsuna.

9 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson) skrifar:

    Það er auðvelt að ruglast í ríminu. Kartöflur þykja mér góðar og þess vegna segi ég alveg hiklaust: Mér þykja kartöflur góðar. Þar að auki þykir mér Lindu buff gott og einnig þykja mér Lindu buff góð. (Segir einhver Lindu buff þykir mér góð?) Málnefnd og aðrar stofnanir, sem fást við íslenskt mál, virðast sjaldnast vilja taka afstöðu til mála.

  2. Eygló skrifar:

    „Bremsufar“ fékk allt í einu nýja merkingu hjá mér. Það væri eiginlega synd ef svona snillingar tækju sig á, ha ha ha. Þetta eru gleðigjafar, stöku sinnum.

  3. Sigurður Hreiðar skrifar:

    Ja þú segir nokkuð. Með tilvísun til þessara orða Mark Twain má ég líklega tala um mig í fleirtölu. En er ekki með njálg!

    Já, tilvitnunin í fréttina um Asperger-drenginn er náttúrlega bara snilld. Argandi dæmi um það sem ég er alltaf að fjasa um smáorðin sem ofaukið er af því fólk skilur ekki málið sem það er þó að nota.

  4. Eiður Svanberg Guðnason skrifar:

     Þessi  frétt  er  auðvitað hrein snilld. Svona  skrifa  bara snillingar !

  5. Helga Sigrún Harðardóttir skrifar:

    Svo má ekki gleyma fréttinni af netmiðli Vísis um drenginn með Asperger heilkennið sem ferðaðist í ellefu daga með neðanjarðarlestum. Hann var sagður hafa notað klósett lestarinnar til að hægja á sér. 

  6. Eiður Svanberg Guðnason skrifar:

      Sæll Bergsteinn, –  ég hallast því að þú hafi rétt fyrir þér. Ég hugleiddi þetta en ákvað  að  leiðrétta ekki  nema eitt  atriði í setningunni. Líklega voru það mistök.

    Sigurður Hreiðar, – líklega  getur þetta verið á hvorn veginn sem  er. Auðvitað er ég í eintölu  eins og þú. Var  það ekki  Mark Twain ,sem  sem sagði að þeir einu sem gætu talað um sig í fleiritölu væru ritstjórar og menn  með njálg ? Þeir mættu segja: Við.

  7. Eygló skrifar:

    Sigurður, það vafðist svo fyrir mér með töluna. Lenti í rökræðum við skólasystur mínar sem allar fengu afburða kennslu í íslensku.
    Þar sem við sættumst ekki á niðurstöðu, hringdi ég í Málnefnd.  Þar var mér sagt að þetta væri mjög á reiki og væri í raun hvernig maður „hugsaði“. Hvað þykir mér gott? Rækjur? – Fæstir segðu: Hvað þykja mér gott? – Svo hljómar ekki alvarlega ambögulegt að segja „mér þykja rækjur góður“ – þótt ég geri það ekki.  Mér „þykir“ nefnilega.  Sel þetta ekki dýrara en ég keypti það hjá Málnefnd.

    Málvísasta fólk; fjölmiðlafólk sem annað  hefur tekið um nafnháttareinokunina. Hef staðið sjálfa mig að því og gæti hafa „misnotað“ það ítrekað, án þess að taka eftir. Þetta verður til þess að sagnbeygingar leggjast niður, – nema af so.        „að vera“.

    Viðtengingarháttur er líka á hröðu undanhaldi. Takið bara eftir í sjón- og útvarpi.

  8. Sigurður Hreiðar skrifar:

    Tek undir með Bergsteini. Þess utan finnst mér betra að sögnin vísi til þess sem ofbýður, ekki til þess sem veldur honum ofboðinu. Ef lögmennirnir væru tveir tek ég undir að þeim ætti að ofbjóða vinnubrögðin. En þinn skilningur á orðalaginu virðist mér vera ofan á og etv. kenndur þannig, þó mér finnist hann byggjast á misskilningi. Dæmi: Mér þykir bækur áhugaverðar — ekki Mér þykja bækur áhugaverðar. Ég er að tala um hvað mér finnst — hvað mér þykir. Og ég er bara í eintölu.

  9. Haukur Kristinsson skrifar:

    Já, þetta fjárans „að“. Meltingarlyf sem hjálpar mörgum, en ekki meltingarlyf sem er að hjálpa mörgum.Hún segir að sér hafi aldrei liðið betur, en ekki hún segist aldrei hafa liðið betur. Málið er, að íslenskan er mjög erfitt tungumál.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>