«

»

Molar um málfar og miðla 209

   Á Morgunvakt Rásar tvö (25.11.2009) var fjallað um hangikjöt. Þá sagði umsjónarmaður: Það er ekki sama hvernig hangikjöt er gert. Þá vaknar spurningin: Gera menn hangikjöt? Spjallað var við starfsmann RÚV eins og alsiða er á þeim bæ, enda óþarfi að leita langt yfir skammt og vera að tala við utanhússfólk, nema í neyðartvikum.  Sá sagði um lyktina af tvíreyktu hangikjöti, að hún ætti að vera það sterk að hún leggi yfir alla sveitina. Molaskrifari er á því að hann hefði átt að segja um lyktina: að hana leggi yfir alla sveitina. Í norðanátt leggur reykinn frá loðnubræðslunni yfir bæinn. 

 

Þegar lögreglumaður lítur svo á að hann haldi ekki utan um ástandið getur það þó gerst að hann nái ekki að vara við. Þetta er haft eftir lögreglumanni (25.11.2009) á mbl.is . Að halda utan um ástandið er ekki vel að orði komist, mildilega orðað. Þarna hefði mátt segja , til dæmis: Þegar lögreglumaður telur, að allt sé að fara úr böndunum, 

 sem stelpunum langar í, sagði fréttamaður Stöðvar tvö (25.11.2009) og var þá að tala um forláta kaffivél  fyrir nýja kaffistofu á Akranesi.. Ef hann hefði verið laus við þágufallssýkina hefði hann sagt: .. sem stelpurnar langar í. Örstuttu síðar sagði sami fréttamaður:  þeim sem langar… Sjálfum sér samkvæmur í vitleysunni.

 Kynnir Kastljóss tóka svo til  orða (25.11.2009): Gasið spilar einmitt stórt hlutverk í að fyrirbyggja hjartasjúkdóma.  Mætti  Molaskrifari   biðja um minni áherslu á hárgreiðslu en meiri á málvöndun ?

 

   Ekki kunni Molaskrifari að meta að heyra seðlabankastjóra  (25.11.2009) tönnlast á að draga á lán og svo tala menn um að draga á lánalínur.  Sjómenn á línubátum draga línu, oftar þó línuna , með ákveðnum greini en um þessi margumtöluðu lán ætti að nota sagnirnar að nýta  eða taka.

 

 Rás tvö, Ríkisútvarpsins auglýsir nýjan útvarpsþátt undir  nafinu Bergson (með einu s ) og Blöndal. Molaskrifari vissi ekki betur en sá sem fyrra nafnið vísar til sé Bergsson. Það segir símaskráin að minnsta kosti.   Í tíufréttum RÚV sjónvarps (25.11.2009) talaði stjórnmálafræðingur um að hafa sínu fram. Ruglaði saman orðtökunum að fara sínu fram, halda fast við sína stefnu án tillits til annarra og að hafa sitt fram, fá vilja sínum framgengt.

 

 Nýlega var í Molum rætt um það að sum orð eru aðeins til í eintölu, önnur aðeins í fleirtölu. Blaðamaður Morgunblaðsins flaskar á þessu (26.11.2009) og skrifar: Mistök starfsmanns velferðarsviðs varð til þess Mistök er fleirtöluorð og þess vegna hefði blaðamaðurinn átt að skrifa: Mistök starfsmanns velferðarsviðs urðu til þess…. 

 

 Ríkisútvarpið hefur í áraraðir fylgt þeirri ágætu reglu að byrja ekki að flytja jólalög í dagskránni fyrr en eftir 1. desember.Umsjónarmenn Morgunvaktar Rásar tvö töldu rétt að brjóta þessa reglu (26.11.2009) og verja löngum tíma í að auglýsa nýja jólaplötu tiltekinnar hljómsveitar. Reglur Ríkísútvarpsins eru líklega bara til að brjóta þær.  

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>