Það hefur um langa hríð verið ótrúlegt að fylgjast með stjórnarandstöðunni á Alþingi, þar sem reynslulausir foringjar ráða ferð. Stjórnarandstaðan er í minnihluta en heldur meirihlutanum í gíslingu með málþófi út um víðan völl. Málþófi um mál sem búið er að ræða meira og minna í hálft ár. Þar sem búið er að segja allt, oft. Við upplifum minnihlutann nauðga lýðræðinu og meirihluta þingsins. Líka sjáum við stjórnarandstöðuna misbeita þingskapalögum, þegar þingmenn sama flokks leggjast í andsvör hver við annan. Það er alveg ný tegund af lýðræði ef minnihlutinn á að ráða.
Nú þarf forysta þingsins að taka á sig rögg. Slíta ekki fundi fyrr en umræðum lýkur um Icesave deiluna. Það hefur verið gert áður á Alþingi. Molaskrifari minnist þess fyrir býsna löngu er verið var að breyta kvótalögum í efri deild. Þá héldu þingmenn Alþýðubandalagsins uppi málþófi. Umræður í deildinni hófust síðdegis. Þeim lauk um tíu leytið morguninn eftir. Þá var ekkert gefið eftir. Þeir sem héldu uppi málþófinu lásu m.a. upp úr bókum. Þá var Moggi til húsa í Aðalstræti og um fjögur leytið um nóttina sótti einhver Mogga næsta dags og rétti þingmanni sem var í ræðustóli. Hann byrjaði að lesa úr Mogganum, meðal annars auglýsingar. Auglýst var eftir blaðbera til að bera út Morgunblaðið í heimabyggð þingmannsins. Þá setti að honum svo mikinn hlátur að hann mátti vart mæla og tóku flestir viðstaddir undir.
Það er svo hámark hræsninnar að þegar þingmönnum stjórnarandstöðunnar er borið á brýn að halda uppi málþófi ( sem allt sæmilega vitiborið fólk sér og heyrir að þeir eru að gera) þykjast þeir móðgaðir og særðir. Koma af fjöllum og skilja ekkert í þessum ásökunum. Hvað halda þeir að kjósendur séu? Fífl?
Líklega er það einsdæmi að stjórnarandstaða á nokkru þjóðþingi hafi hegðað sér eins og stjórnarandstaðan á Íslandi gerir nú. Þetta er séríslenskt fyrirbæri, rétt eins og Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur.
11 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Emil Örn Kristjánsson skrifar:
29/11/2009 at 00:26 (UTC 0)
Vertu ekki með þessar hártoganir, Steini. Þú veizt vel hvað ég á við.
Samfylkingin er einstök í sinni röð að því leyti að hún er ekki stofnuð utan um aðra hugsjón en þá að fella Sjálfstæðisflokkinn.
Allir aðrir flokkar, sem nú sitja á þingi eiga sér hugsjónir sem þeir berjast fyrir.
Vissulega hafa setið á þingi ýmsir flokkar sem hafa verið myndaðir um eitt ákveðið mál eða einn ákveðinn frambjóðanda. Þar má t.d. nefna Þjóðvarnarflokkinn, Samtök um jafnrétti og félagshyggju og Frjálslynda flokkinn.
Samfylkingin er eftir sem áður sér á báti því hún vill takmarka val kjósenda. Það er ekki markmið hjá Sjálfstæðisflokknum að þurrka út Vinstri græna og Borgarahreyfingin var ekki stofnuð til þess að knésetja Framsóknarflokkinn.
Þessi umræða hefur ekkert með það að gera hvað kjósandinn kýs í kjörklefanum eða hvort fólk kýs sama flokkinn aftur og aftur eða ekki.
Það sem ég er að reyna að benda á er þessi sérstaða Samfylkingarinnar.
Ég hef vissulega fært rök fyrir máli mínu, hvort sem þú ert sammála þeim rökum eða ekki, svo þessi síðasta athugasemd þín er út úr korti.
Steini Briem skrifar:
28/11/2009 at 07:53 (UTC 0)
Emil Örn.
Enda þótt Sjálfstæðisflokkurinn yrði lagður niður eftir hádegi í dag yrði Samfylkingin ekki lögð niður á morgun. Hvað þá Vinstri grænir, Framsóknarflokkurinn eða Þráinn Bertelsson, sem hefur þá væntanlega verið stofnaður til höfuðs Borgarahreyfingunni.
Það væri nú einkennilegt ef allir hefðu sömu skoðanir á öllum málum og stjórnmálaflokkar ættu enga andstæðinga. Innan Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins eru að sjálfsögðu alls kyns skoðanir. Einnig í mörgum góðum hjónaböndum, eins og dæmin sanna.
Fólk fæðist yfirleitt ekki inn í ákveðinn stjórnmálaflokk og fjöldi fólks kýs ekki sama flokkinn alla ævina. Stjórnmálaflokkar eru ekki knattspyrnufélög.
Og frá sjónarhóli lýðræðis eru skoðanir fólks sem kýs Samfylkinguna og Framsóknarflokkinn hvorki merkilegri né ómerkilegri en skoðanir þeirra sem kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Allar skoðanir eru jafn réttháar í kjörklefanum, rökstuddar sem órökstuddar.
En í rökræðum eru órökstuddar skoðanir einskis virði.
Emil Örn Kristjánsson skrifar:
27/11/2009 at 23:23 (UTC 0)
Steini, R-listinn var á sínum tíma stofnaður til höfuðs Sjálfstæðisflokknum. Samfylkingin er skilgetið afkvæmi hans. Hún er stofnuð til þess að koma Sjálfstæðisflokknum á kné. Það er satt að Sjálfstæðisflokkurinn var stofnaður við samruna tveggja flokka. Þá voru aðstæður aðrar og flokkakerfið í mótun hér á Íslandi. Hins vegar voru sk. sam- og þjóðfylkingar A-Evrópu stofnaðar undir lok 5. áratugar síðustu aldar gagngert til höfuðs íhaldsflokkunum.
Hversu lýðræðislegur flokkur er hefur ekkert með það að gera hve margir kjósa hann.
Blessaður Benedikt, gaman að sjá þig hér.
Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson) skrifar:
27/11/2009 at 21:19 (UTC 0)
Vinur minn, Steini, sem ætlaði að verða forsætisráðherra á vegum Álversflokksins, ætlaði að beita málþófi alla daga og halda því áfram þangað til þingforseti yrði handlama af því að lemja í bjölluna. Þá ætlaði hann að þagna en bara rétt á meðan forseti væri að jafna sig í hendinni.
Steini Briem skrifar:
27/11/2009 at 21:18 (UTC 0)
Íslenska fjármálaráðuneytið skrifaði undir skuldaviðurkenningu íslenska ríkisins varðandi IceSave-reikningana strax í fyrrahaust. Þá var Árni Mathiesen fjármálaráðherra og Geir H. Haarde forsætisráðherra. Neituðu þeir þá að greiða þessa reikninga?!
Þeir eru báðir í Sjálfstæðisflokknum en ekki Samfylkingunni og það er margbúið að fara yfir þetta mál hér með tilheyrandi skjölum og undirritunum.
Jónas Egilsson skrifar:
27/11/2009 at 20:47 (UTC 0)
Bandaríkjaþing glímir stundum líka við þetta séríslenska fyrirbrigði sem við köllum málþóf, en er reyndar kallað „filibuster“ þar. Demókratar reyndar hafa því sem næst „filibusterproof“ meirihluta í öldungadeildinni með 60 þingm. á móti 40 þingm. Republikana.
Reyndar kemur þessi gagnrýni um málþóf úr hörðustu átt. Steingrímur J. vann sér helst til frægðar að tala mikið á þingi og halda uppi málþófi. Hann er óskoraður ræðukóngur þingsins sl. 18 ár eða þar um bil. Jóhanna sjálf átti það til að taka til máls líka og var ekki langt undan. Eitthvað hefur þaða gleymst.
Svo skulum við ræða málefni. Síðustu ríkisstjórnir hafa ekki haldið vel á þessum Icesave-málum og ekki er áhugi leiðtoga ríkisstjórnarinnar mikill til að verja okkar hagsmuni sem þjóðar. Horft er framhjá mörgum mikilvægum rökum í þessu máli sem ekki bara stjórnarandstaðan kemur með heldur fjölmargir mætir menn og konur, þ.m.t. Indefence hópurinn og Sigurður Líndal lögfræðiprófessor. Af hverju þarf að keyra þetta mál í gegn? Hvað annað liggur að baki þarna? Liggur svona á að koma okkur inn í ESB?
Hef stundum lesið þessa pistla þína Eiður og hef haft af því bæði gagn og gaman, þótt ég sé ekki alveg sammála þér nú.
Eiður Svanberg Guðnason skrifar:
27/11/2009 at 20:20 (UTC 0)
Þessi sakleysisskrif koma greinilega við viðkvæmar taugar sumra !
Steini Briem skrifar:
27/11/2009 at 20:02 (UTC 0)
Það er nú harla einkennilegt að telja Samfylkinguna ólýðræðislegan flokk vegna þess að margir vilja kjósa hana en fáir litlu flokkana.
Sjálfstæðisflokkurinn er þá væntanlega einnig ólýðræðislegur flokkur, enda var hann stofnaður við samruna Frjálslynda flokksins og Íhaldsflokksins árið 1929.
Mesta lýðræðið er þá væntanlega hjá Þráni Bertelssyni.
Emil Örn Kristjánsson skrifar:
27/11/2009 at 18:24 (UTC 0)
…til höfuðs öðrum flokki.. átti að standa
Emil Örn Kristjánsson skrifar:
27/11/2009 at 18:23 (UTC 0)
Ég tek nú bara undir með Ásgeiri.
Bæti því jafnframt við að Samfylkingin er sér íslenzkt dæmi um flokk sem beinlínis er stofnaður til höfðus örðum flokki, þ.e.a.s. Sjálfstæðisflokknum. Meginmarkmið Samfylkingarinnar er í raun að takmarka val kjósenda og er hún því eðli sínu ólýðræðislegur flokkur. Ekki ósvipað og samfylkingar A-Evrópu á sínum tíma, sem kölluðust nöfnum eins og t.d. Ungverski sósíalíski verkamannaflokkkurinn, Sósíalíski sameiningarflokkur Þýzkalands og Pólski sameinaði verkamannaflokkurinn. Þó þeir væru í daglegu tali bara kallaðir kommúnistar.
Ágúst Ásgeirsson skrifar:
27/11/2009 at 17:50 (UTC 0)
Ég vil byrja á að þakka þér málfarspistlana, sem eru með því betra hér á blogginu. En ósammála er ég inntaki þessa pistils. Og kemur mér á óvart að jafn reyndur maður og sigldur sem þú skulir láta þetta fara jafn mikið í taugarnar á þér og raun ber vitni!
Og ég held að þetta sé alls ekkert séríslenskt fyrirbæri, rétt eins og Samfylkingin og Vinstri grænir!
Ég er talsvert yngri en þú en man eftir því, að um dagana hafa allir flokkar verið í þessu hlutverki; að halda uppi málþófi eins og sumir kalla það eða nýta sér þinglegan rétt sinni til að fjalla um mál á dagskrá eins og aðrir eiga til að kalla það.
Skiptir litlu hvað það nefnist, en þetta er aðferð sem víða er beitt í átakamálum á þingi. Til dæmist hér í Frakklandi. Hér eru sósíalistar aðallega í því hlutverki nú, systurflokksmenn Samfylkingarinnar. Sú aðferð sem þeir beita helst til að draga mál á langinn og tefja lokaafgreiðslu mála er að leggja fram allt að mörg þúsund breytingatillögur við einstök frumvörp! Það er ávísun á gríðarlega langdregna umræðu. Þetta hljómar kannski einkennilega, en Frakkar eru jú fáum líkir.