«

»

Molar um málfar og miðla 224

21.12.2009 | 13:10

   Molaskrifari gerir lítið af því að taka texta af fésbókinni og viðra hér. Þessa setningu stóðst hann ekki: Með miklu áti er undirbúið sig fyrir heljarinnar snjóstorm sem er á leiðinni í borgina. Ótrúlega eru þeir margir, sem halda að orðið snjóstormur sé íslenska. Svo er ekki. Þetta er aulaþýðing úr ensku , snowstorm. Á íslensku heitir þetta stórhríð. Aðrar ambögur í þessari setningu eru augljósar.

Hvað finnst þér mest skemmtilegast í skákinni? Svona spurði fréttamaður í fréttatíma Stöðvar tvö (19.12.2009) Dugað hefði að segja: Hvað finnst þér skemmtilegast í skákinni. Aldrei skal nota hæstastig tveggja lýsingarorða í sömu setningunni.

Svolítið er það þreytandi að heyra fréttamenn ítrekað kalla Saab-borgina Trollhättan í Svíþjóð Trollhattan. Bókstafurinn ä er borinn fram eins og e.

 Alltaf finnst Molaskrifara það jafn andkannalegt, eða ankannalegt, þegar orðatiltækið að vinna hörðum höndum er notað um næstum hvað sem er. Í fréttatíma  Stöðvar tvo (19.12.2009) var talað um að vinna hörðum höndum að því að fá aðild að félagasamtökum.

 Hér er verið að skattleggja endanotandann, sagði alþingismaður í ræðustóli Alþingis. Endanotandi ? Er það sá sem notar endann? Auðvitað ekki. Þetta er enn ein aulaþýðingin úr ensku þar sem talað er um end user. Í þessu tilviki átti að skattleggja notendur þeirrar þjónustu ,sem um var verið að ræða.

Sir Alex Ferguson, stjóri United, leist ekki á blikuna, sagði  íþróttafréttamaður  Sjónvarps ríkisins ( 19.12.2009) seint læra menn beygingareglur móðurmálsins á þeim bæ. Orðið stjóri á ekki að vera í nefnifalli, heldur  þágufalli. Honunm leist ekki á blikuna.

 Eftirfarandi er úr dv.is … hefði greitt atkvæði í ölvunarástandi. Einfaldara og betra hefði verið að segja hefði greitt atkvæði ölvaður, eða hefði verið ölvaður er hann greiddi atkvæði.

1 athugasemd

Ekkert ping ennþá

  1. Pétur Oddbergur skrifar:

    Ég rakst á frétt Fréttablaðsins í gær um ungan mann sem lenti í bílslysi síðastliðinn föstudag. Ég rakst síðan á frétt um sama mann á heimasíðu dv, dv.is. Þeir gera sömu mistök í báðum miðlum. Athugaðu hvernig þeir beygja nafnið hans:
    http://www.dv.is/frettir/2009/12/20/fh-ingar-syna-hrafnkatli-studning/

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>