«

»

Molar um málfar og miðla 223

  Úr kvöldfréttum RÚV sjónvarps (18.12.2009) : Þá er bent á að leiðbeinendur námskeiðsins... Það er sem sé verið að leiðbeina námskeiðinu!  Eðlilegra hefði verið að segja: Leiðbeinendur sem kenna á námskeiðinu…

 Garðapósturinn flytur okkur Garðbæingum margvíslegan fróðleik. En menn þurfa á þeim bæ að vanda málfarið svo við hnjótum ekki um setningar eins og þessa (18.12.2009): …segir Faraj Shwaiki, sem rekur staðinn ásamt bróðir sínum.

 Sá sem skrifaði þetta í vefmiðilinn visir.is (18.12.2009) skilur ekki muninn á því að kjósa og greiða atkvæði.: .. var undir áhrifum áfengis þegar hann kaus á Alþingi í gær .. Umræddur þingmaður var ekki að kjósa , heldur greiða atkvæði.
Ekki batnar fréttin þegar fram í sækir: Ekki kom fram hvaða mál hann var að kjósa um. Það hefur örugglega gerst nokkur þúsund sinnum sinnum á Alþingi að þingmenn hafa tekið þátt í atkvæðagreiðslu eftir að hafa dreypt á dýrum veigum. Sannarlega er það ekki til fyrirmyndar, en fjölmiðlar þurfa ekki að láta eins og þetta sé eitthvað sem aldrei hafi gerst áður. Blaðamenn vita betur. Molaskrifari skilur Ögmund að biðjast undan viðtali eftir að hafa dreypt á víni með mat. Það er hinsvegar fráleitt sem Sigmar Guðmundsson gerði í Kastljós, er hann las okkur pistil um „ölvun“ Ögmundar. Olli Ögmundur hneykslan á þingi? Varð hann sér til skammar ? Nei. Hann hélt fast við reglu ,sem fleiri þingmenn ættu kannski að tileinka sér. Þarna sökk Kastljósið í hyldýpi sorans. Fréttamenn eiga líka að vera manneskjur.

Bjarni Sigtryggsson sendi Molum eftirfarandi pistil: „Skemmtiþátturinn USA Today mælir með Íslandi sem helsta ferðamannastaðnum fyrir næsta ár. Ísland er á lista ásamt fimm öðrum löndum á vefsíðu USA Today.“ Svo segir á skemmtiþættinum visir.is – eða er það kannski vefsíða. USA Today er nefnilega eitt útbreiddasta dagblað Bandaríkjanna, en ekki skemmtiþáttur.  Takk fyrir þetta, Bjarni. Það er ekki mikilli þekkingu á fjölmiðlaheiminum fyrir að fara hjá þeim,sem þetta skrifar.


Þetta með forsetningarnar af og að er ekki einfalt mál. Í vefmiðlinum visir. is segir í dag (19.12.2009)… Varð uppvís af því í lok ágúst síðastliðinn og baðst afsökunar á því..,. eftir málkennd Molaskrifara verða menn uppvísir að einhverju, ekki af. Menn finna lykt af einhverju, en bragð að einhverju. Svo á auðvitað heldur ekki að  segja: …í lok ágúst síðastliðinn…

 Gleði hjá ring í allan dag, auglýsir Síminn. Síminn er eitt þeirra fyrirtækja,sem kunna ekki að skammast sín fyrir atlögur gegn íslenskri tungu í auglýsingum.

 Gildismat Morgunblaðsins kemur einkar vel fram í laugardagsblaðinu (19.12.2009). Efst á forsíðu er fjögurra dálka fyrirsögn: Hlutabréf í 365 einskis virði samkvæmt verðmati.Vísað er á frétt á bls. 22 , þriggja dálka frétt þar sem sagt er nákvæmlega það sama og í forsíðufréttinni. Á besta greinastað í blaðinu, leiðaraopnunni, er löng grein eftir Baldur Guðlaugsson fyrrverandi ráðuneytisstjóra, sem  borið er á brýn að hafa nýtt sér innherjaupplýsingar til að hagnast um nær tvö hundruð milljónir á sölu hlutabréfa í Landsbankanum rétt fyrir hrun. Ekki skal fleira um þetta sagt.

Líklega verður um sinn  lítið eitt lengra milli Mola  en verið hefur að jafnaði.

1 athugasemd

Ekkert ping ennþá

  1. borkur skrifar:

    Hluti af starfi stjórnmálamanns er að upplýsa almenning fjölmiðla. Ögmundur er ekki fjölmiðlafælinn maður og því hlýtur hann að hafa metið það sem svo að hann væri ekki í ástandi til að sinna þessum hluta af starfi sínu. M.ö.o. hann mat það svo sjálfur að hann væri fullur. Hversvegna það þykir það ekki frétt að Alþingismenn séu fullir í vinnunni? Krefst þetta starf svona lítils af mönnum?

    Hvað með aðra opinbera starfsmenn? Finnst þeim sem hneyklast á Sigmari það bara alveg sjálfsagt að leiksskólakennarinn, strætóbílstjórinn og skurðlæknirinn séu að sötra hvítvín með hádegismatnum?

    Það er hinsvegar engin frétt í því að flestir þeir sem finnst fréttamat Rúv vera sori eru sjálfir núverandi, eða fyrrverandi Alþingismenn.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>