Kunna menn ekki lengur að leggja saman? Í kvöldfréttum útvarps (01.03.2010) var greint frá afstöðu almennings til Icesave laganna,sem forsetinn neitaði að undirrita. Sagt var að 74% væru á móti, 19% með og 8% ætluðu að skila auðu. Þetta eru samtals 101%! Þessar röngu tölur voru svo endurteknar á mbl.is og vísað í fréttir RÚV og til að kóróna vitleysuna var birt prósentukaka í fréttum RÚV sjónvarps klukkan 19 00 þar sem tölurnar voru endurteknar. Enn var svo sama prósentukakan birt óleiðrétt í tíu fréttum sjónvarps. Þetta er eiginlega með ólíkindum. 101% . Halló, RÚV !
Í tíu fréttum RÚV sjónvarps (01.03.2010) var okkur sagt, að tíu fréttir yrðu hér eftir með breyttu sniði. Eina breytingin, sem Molaskrifari gat séð, var aukið rými fyrir íþróttafréttir, þær voru næstum helmingur fréttatímans, – svona á að giska.
Búið að opna veginn um Hafnarfjall, var sagt í fyrirsögn á visir.is (26.02.2010). Í fréttinni var réttilega talað um þjóðveginn undir Hafnarfjalli, en málvenja er að taka þannig til orða. Vegurinn er undir hlíðum Hafnarfjalls,eða í grennd við þær. Hann er ekki um Hafnarfjall. Ef til vill hefur sá, sem fyrirsögnina samdi, aldrei farið þessa leið. Sama orðalag var notað um þetta á mbl.is. Étur hér hver eftir öðrum?
Um herferð til verndar móðurmálinu í Þýskalandi segir svo í þriggja dálka undirfyrirsögn í Morgunblaðinu (26.02.2010): Utanríkisráðherrann hefur fengið nóg af ásælni enskunnar.Molaskrifari efaðist í fyrstu um um að ásælni, væri rétta orðið í þessu samhengi. Orðið ásælni og sögnin að ásælast er algengast í merkingunni að slægjast eftir e-u. En í Íslenskri orðabók segir að ásælni geti líka verið yfirgangur og þá er þetta rétt orð á réttum stað. En líklega hefði Molaskrifara verið eðlilegra að tala um ágang enskunnar.
Góðvinur sendi Molum þessa athugasemd: „Þulukynning hjá RUV: „Í þættinum Army Wives er fylgst með mökum hermanna, sem búa í herstöð““ . Molaskrifari bætir við: Þetta er ein af ástæðum þess, að rétt er að leggja þulukynningarnar niður. Takk fyrir JÞH.
Hætti að horfa á Edduþáttinn (27.02.2010), þegar okkur var sagt frá frá mest hæfu konunni,(hæfustu) og sá sem það sagði bauð svo Kolbrúnu Halldórsdóttir (dóttur) velkomna.
Henni urðu á engin mistök í brautinni, var sagt í íþróttafréttum RÚV (27.02.2010). Hér hefur orðaröð skolast til, – þetta hefur svo sem heyrst áður. Eðlilegra hefði verið að segja: Henni urðu engin mistök á í brautinni, – eða: Henni urðu ekki á nein mistök í brautinni.
Undir fyrirsögninni Hvernig varð hann fyrir raflostinum? sendi Bjarni Sigtryggsson Molum eftirfarandi:
Bifreið Messengers kastaðist út í skurð við áreksturinn og rafmagnstaurinn brotnaði. Rafmagnslínurnar, sem staurinn bar, slitnuðu og enduðu ofan í skurðinum þar sem Messenger aðhafðist við bíl sinn. Talið ar að þvagið hafi lekið í rafmagnslínurnar með þeim afleiðingum að Messenger hlaut banvænann raflost.“
Þeir sem svona skrifa ættu ekki að ganga lausir á neinum miðli.
Skildu eftir svar