«

»

Molar um málfar og miðla 268

 Í fréttum beggja sjónvarpsstöðvanna (03.03.2010) var talað  um að skipa  bráðabirgðastjórn yfir bankanum (VBS).  Þetta samræmist ekki  máltilfinningu Molaskrifara.  Honum finnst  eðlilegra að  tala um bankanum hafi verið skipuð bráðabirgðastjórn, eða  að bráðabirgða  stjórn hafi verið skipuð,eða sett,  yfir  bankann. Nú má  vel vera að þetta sé  rangt hjá Molaskrifara. Fróðlegt  væri að  fá  viðbrögð lesenda við þessu.

 Maður sem  rætt var við í fréttum Stöðvar tvö (03.03.2010) sagði: … þá erum  við með ekkert ráðuneyti, sem ... Eðlilegra  hefði verið: …þá erum við ekki með neitt ráðuneyti,sem….

Erlend pör sem koma í tæknifrjóvgun til Íslands  fjölgað verulega.Þessi fyrirsögn var á visir.is (03.03.2010). Vonandi er sá sem þessa fyrirsögn samdi, ekki lesblindur, en þetta er með ólíkindum.

 Dagskrárlok er klukkan.… ,sagði dagskrárkynnir  Ríkissjónvarpsins (02.03.2010). Lok í merkingunni lyktir eða  endalok  er ekki til í eintölu. Þessvegna hefði átt að segja. Dagskrár lok eru klukkan…

  Í fréttatíma RÚV sjónvarps (02.03.2010)  var sagt um flugvirkja, að þeir hefðu fellt  kjarasamninginn með miklum yfirburðum.  Þetta orðalag ber  ekki vott um ríka máltilfinningu. Betra hefði verið að segjaað kjarasamingurinn hefði verið felldur með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða.  Í sama fréttatíma var sagt að utanríkisráðuneytið hefði tekið efri hæð Iðnós  til leigu. Hér  hefði  verið að mati Molaskrifara  verið   eðlilegra að  tala um að taka  á leigu,  það sem auglýst hefur verið til leigu.

 Nútíðarnafnháttarsýkin er áleitin.- Bretar og Hollendingar eru ekki að gefa okkur nein svör , sagði  stjórnmálaforingi við fréttamenn (02.03.2010) og  átti  við að við fengjum ekki svör  frá  Bretum og Hollendingum eða  að Bretar og Hollendingar svöruðu okkur ekki.

  Þegar í    fréttum RÚV  sjónvarps  (02.03.2010) var talað um steypuklæddan stöpul, sá Molaskrifari ekki betur en verið væri að tala um steypta undirstöðu lyftumasturs í   skíðalyftu.  Eða hvað? Aldrei heyrt talað um steypuklædda stöpla. En steypuklæddur stöpull væri líklega  stöpull úr tré, , klæddur  þunnu lagi af steypu, eða forskalaður, en sú  aðferð heyrir líklega  sögunni til.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>