Prýðileg umfjöllun um Færeyjar var í þeim langlífa og ágæta þætti Steinunnar Harðardóttur Út um græna grundu á Rás eitt í Rúv (06.03.2010). Þar var rætt við Sigrúnu Valbergsdóttur, sem þekkir manna best til vel til í Færeyjum og er þar tíður gestur. Umsjónarmaður hefði þó mátt nota nýrri tölur en frá 2006 um íbúafjölda.Tölur frá 2009 eru aðgengilegar á netinu. Þessi Færeyjaumfjöllun var ágætur eftirréttur við færeyska veislu hjá Jóhannesi í Fjörukránni kvöldið áður, en þar eru Færeyjadagar um helgina.
Ekki heyrði Molaskrifari betur en áttafréttir RÚV (06.003.2010) væru um 80& orðrétt þær sömu og fluttar voru klukkan eitt eftir miðnætti aðfaranótt laugardagsins !
Hverjum eiga hlustendur að trúa ? Í fréttatíma Stöðvar tvö (01.03.2010) var sagt að tekist hefði að ná sambandi við 39 af þeim 40 Íslendingum ,sem vitað væri um í Síle. Hálftíma síðar var sagt í sjónvarpsfréttum RÚV, að ekki hefði tekist að ná sambandi við sex af þeim Íslendingum ,sem vitað væri um í Síle. Önnur hvor fréttin var röng, en hvor?
Oft er Molaskrifari hissa á dagskrárgerðinni hjá RÚV, nefskattssjónvarpinu. Mánudagskvöldið 1. mars voru endursýndir í beit tveir þættir af Aðþrengdum eiginkonum! Það er svo sannarlega reisn yfir þessu.
Lagersalan við Bæjarlind í Kópavogi auglýsir á Bylgjunni (28.02.2010). Verslum föt fyrir minna. Ótrúleg verð. Það er ekkert til sem, heitir að versla föt. Við kaupum föt, en líklega verslar Lagersalan með föt. Svo á , að mati Molaskrifara , ekki að hafa orðið verð í fleirtölu.
Í fréttatíma RÚV sjónvarps (01.03.2010) var sagt frá starfsmönnum Landhelgisgæslunnar ,sem eru innlyksa í Síle. Sagt var að þeir væru heilir heilsu. Ekki fellir Molaskrifari sig við þetta orðalag. Eðlilegra hefði verið að segja að mennirnir væru heilir á húfi. Oft er sagt um þá sem verið hafa veikir, að þeir séu orðnir heilir heilsu. Þarna er blæbrigðamunur á. Ágætt var í fréttum Bylgjunnar, þegar sagt var að mennirnir væru heilir á húfi og við góða heilsu. Prýðilega orðað.
Úr mbl. is (023.03.2010): .. er bíll,sem var að fara yfir umferðarljós fékk annan bíl inn inn í hliðina. Ekki er þetta mikil ritsnilld. Bjarni Sigtryggsson spyr með réttu: Skyldi bíllinn hafa verið í aðflugi eða flugtaki þegar honum var ekið yfir umferðarljósin? Ekki getur Molaskrifari svarað því.
1 athugasemd
Ekkert ping ennþá
Birgir Örn skrifar:
08/03/2010 at 11:54 (UTC 0)
Sæll Meistari.
Ég hef verið að velta einu fyrir mér. Orðunum: hinn og þann. Sigurður Tómas skammaði mig eitt sinn fyrir að skrifa: ,,þann 21. apríl“. Hann vildi að ég skrifaði: ,,hinn 21. apríl“. Ég hef verið að velta þessu fyrir mér. Ætli að bæði sé rétt eða er þetta satt hjá honum Sigurði? Að maður skuli segja hinn en ekki þann?
Hvað veist þú um þetta?