«

»

Molar um málfar og miðla 278

Fréttamenn verða að þekkja merkingu þeirra orða, sem þeir láta sér um  munn fara. Íþróttafréttamaður RÚV  sagði í sjónvarpsfréttum (29.03.2010) um forráðamenn  skíðalandsmótsins, að þeir  hefðu  ekki verið upplitsdjarfir um morguninn, en þá var veðurútlit slæmt fyrir skíðakeppni.  Að vera upplitsdjarfur,segir Íslensk orðabók, er að  þora að horfast í augu við aðra , vera feimulaus á svipinn.  Að   vera  ekki upplitsdjarfur hefur Molaskrifari  skilið sem  svo að vera  skömmustulegur. Þora ekki að horfast í   augu  við aðra.

Eldgosið í rénum, sagði í fyrirsögn á visir.is (29.03.2010). Þetta er rangt. Þarna hefði átt að standa; Eldgosið í rénun.  Að  eitthvað sé í  rénun þýðir , að eitthvað sé minnkandi eða þverrandi. Í fréttinni undir fyrirsögninni er ýmist sagt í rénun eða í rénum.

Lögregluþolmyndin er lífsseig…voru teknir af lögreglu … var sagt í kynningu á efni Kastljóss           (24.03.2010). Germynd er alltaf betri. Fáránleg umfjöllun í Kastljósi um ölvunarakstur af rýmingarsvæðinu fyrir austan. 

 Ríkissjónvarpið sýndi tvær frábærar heimildarmyndir eftir seinni fréttir (24.03.2010). Myndirnar voru  um Alexander,sem er fatlaður íslenskur drengur, og um færeysku veikina,sem svo er kölluð. Það er hinsvegar óskiljanleg dagskrárgerð að sýna þessar myndir svo seint að kveldi . Börn og unglingar sem  eru heilbrigð hefðu haft gott af því að sjá myndina um Alexander, svo vel gerð,sem hún er.    Enn óskiljanlegra  er að hnýta þessar tvær myndir saman og sýna í beit. Algjörlega  galin dagskrárgerð.

 Í fréttayfirliti í upphafi  sjónvarpsfrétta RÚV (25.03.2010)  og í  yfirliti í fréttalok var sagt, að vöruflutningavagnar í Osló hefðu ekið stjórnlaust.  Hið rétta var að vagnarnir runnu stjórnlaust. Þeir óku ekki og þeim var ekki ekið.  

Í kynningu á  efni Íslands í dag á  Stöð tvö (24.03.2010) var talað um: … spilavítamenningu í Danmörku. Erfitt á  Molaskrifari með að menningjartengja  fjárhættuspil.

 Meira að segja  heilbrigðisráðherra landsins  talar um lokun sjúkrarúma !

 Fjölmiðlamenn virðast margir hverjir  staðráðnir í að útrýma orðtakinu í fyrra sumar, í fyrra vetur. Tala  þess í  stað um síðasta sumar eins og  gert var í sjónvarpsfréttum RÚV  (24.03.2010) og heyrist nú og sést æ oftar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>