Þess sér stað, að ekki er lengur kennd landafræði í skólum hérlendis. Í fréttum Stöðvar tvö (25.03.2010) var sagt frá erni ,sem verið hefur í Húsadýragarðinum í Reykjavík að undanförnu, en aflífa varð fuglinn, því hann var ekki lífvænlegur. Fréttamaður Stöðvar tvö sagði ,að fuglinn hefði verið handsamaður við Bjarnarhöfða á Snæfellsnesi síðasta haust. Það er ekkert til á Snæfellsnesi,sem heitir Bjarnarhöfði. Fuglinn var handsamaður við Bjarnarhöfn, en heimafólk þar sá að eitthvað amaði að honum. Það gerðist í fyrrahaust. Ekki síðasta haust.
Afmælis- og ættfræðigreinar í DV eru Molaskrifara skemmtilestur. Nýlega (24.03.2010) var þar grein um níræðan heiðursmann. Sagt var að hann hefði verið til sjós , tólf ára gamall, hjálparkokkur á togaranum Ara Birni Herser. Hér hefur eitthvað skolast til. Greinilega er átt við togarann Arinbjörn Hersi. Hann var byggður í Englandi 1917 (gott ef sú sama skipasmíðastöð smíðaði ekki nýsköpunartogara fyrir Íslendinga eftir seinna stríð) og hét fyrst John Pascoe og var gerður út frá Hull. 1925 eignaðist Kveldúlfur togarann og fékk hann þá nafnið Arinbjörn Hersir. Hann var svo seldur og hét seinna Faxi, en var loks rifinn í brotajárn í Skotlandi 1952 eftir að hafa slitnað upp í Hafnarfirði, rekið yfir Flóann og strandað við Rauðanes , skammt frá Borgarnesi, og hafði þá sneitt mannlaus hjá öllum skerjum.
Hafin er hér á landi útgáfa tímarits um knattspyrnu. Útgefendur hafa sótt í ensku til að finna ritinu nafn. Það heitir Goal, en það þýðir mark á íslensku. Auðvitað var ómögulegt að gefa ritinu íslenska heitið Mark. Það er bæði púkalegt og sveitó ! Það þýðir auðvitað ekkert að segja útgefendum að skammast sín. Þeir skilja sennilega ekki íslensku. En þegar ein báran rís, er önnur vís. Eftirfarandi las Molaskrifari á blogginu (25.03.2010): NUDE magazine er nýtt íslenskt veftímarit um tísku. Skamm!
Bjarni Sigtryggsson hefur áður sent Molum pistla um viðtengingarhátt. Eftirfarandi er frá Bjarna: „Ég þreytist seint á að benda á hversu villandi orðalag hlýzt af því er fjölmiðlamenn nota ekki viðtengingarhátt, þar sem við á. Í vefritinu Pressunni segir í dag, mánudag: „Stjórnarþingmaður: Upphrópunum ætlað að sýna hversu mikil lágkúra er á Suðurnesjum.“
Þarna er beinlínis haft eftir þingmanninum að það sé lágkúra á Suðurnesjum. Enginn fyrirvari á því. Ég efast um að slíkt hafi verið ætlunin hjá þingkonunni, heldur hefði átt þar að standa: „…hversu mikil lágkúra sé á Suðurnesjum.“ Þetta gerbreytir merkingunni.
Fólk, sem hefur ekki fengið undirstöðukennslu í notkun móðurmálsins en ræðst engu að síður til starfa hjá fjölmiðlum, gerir sér ef til vill ekki grein fyrir þessum merkingarmun. Úrræði til bóta gæti verið það að fara í aukatíma hjá móðurmálskennara“. Sagði Bjarni Sigtryggsson.
Mbl.is skrifaði (24.03.2010) um gosið á Fimmvörðuhálsi: Haraldur sagði að eldgosið sé hraungos þar sem upp komi hraun og gjall. Honum finnst það svipa til Öskjugossins 1961 og eins dálítið líkt Eldfellsgosinu í Vestmannaeyjum 1973. Hér finnst Molaskrifara að hefði átt að standa: Haraldur sagði að gosið væri hraungos… Og: Honum finnst því svipa til, – ekki það svipar til. Einhverju svipar til einhvers , eitthvað líkist einhverju. Síðan hefði verið betra ef lokasetningin hefði verið: ..og eins væri það dálítið líkt Eldfellsgosinu í Vestmannaeyjum 1973.
Það er engu líkara en prófarkalestur heyri sögunni til í Hádegismóum.
Það er af sem áður var, þegar Morgunblaðið var öðrum fjölmiðlum til fyrirmyndar um málfar.
Skildu eftir svar