«

»

Molar um málfar og miðla 281

 Úr mbl.is (01.04.02010): Farþegalest lenti saman við aðra lest í Slóvakíu í morgun með þeim afleiðingum að þrír létust og þrír slösuðust alvarlega.  Ekki er þetta nú kunnáttusamlega orðað. Orðabókin segir:  Þeim lenti saman, – þeir deildu, urðu ósáttir, flugust á, slógust,  voru samtímis á sama stað. Farþegalestin rakst á aðra lest, eða ók á aðra lest, ekki satt?

Stundum komast ákveðin orð  eða  orðtök í tísku og  apar þá  hver eftir öðrum. Í  stuttum  fréttatíma  RÚV 8 (Kl. 16 00 28.03.2010) var þrisvar sinnum sagt  heilt yfir. Viðmælandi notaði  þessi orð  tvisvar og fréttamaður einu sinni  í merkingunni, þegar á heildina er litið , eða þegar allt kemur til alls!

  Gáfulegasta spurning ársins hlýtur að vera spurningin ,sem  fréttamaður  Ríkisútvarpsins beindi til sýslumanns Rangæinga í hádegisfréttum RÚV (01.04.2010): Veistu hverjar líkurnar  eru á því að það opnist kannski þriðja sprungan? Sýslumanni Rangæinga er  margt til lista lagt,en hann er   ekki gæddur yfirnáttúrulegri spádómsgáfu, eins og fréttamaðurinn virðist hafa haldið. Fyrirsögn þessarar fréttar á vef RÚV var:  Yfir eitt hundrað manns nærri, þegar sprunga opnaði.  Sprungan opnaði  ekki. Hún opnaðist.

Fréttastofan Stöðvar  tvö veit ekki hvað lögbann er.  Í fréttum þar á bæ (28.03.2010) var sagt að  Alþingi hefði  samþykkt lögbann á verkfall flugvirkja. Alþingi getur ekki samþykkt lögbann. Lögbann er úrskurður, sem embættismaður í dómskerfinu kveður upp.   Alþingi  samþykkir lög. Þeir sem skrifa  fréttir, ættu að hafa þá grundvallarþekkingu á samfélaginu  að vita, að lögbann er eitt,  samþykkt laga annað.

 Svolítið fannst Molaskrifara sérkennilegt að heyra umsjónarmann Kastljóss  (31.03.2010) tala um Faðirvorið, sem  „þessa kunnu bæn.“

   Snögg viðbrögð Selfyssing forðuðu frá eldsvoða í bílskúrnum hans í dag. Úr mbl.is (28.03.2010). Hér er  orðtakið að forða frá  rangt notað að mati Molaskrifara. Sögnin að forða þýðir að bjarga eða koma undan. Hér hefði átt að  segja, að  snögg viðbrögð Selfyssings hefðu komið í veg fyrir eldsvoða í bílskúrnum hans.  

   Forlagið auglýsir, að nú sé Íslenska orðabókin komin út í  einu bindi.  Auglýsingin gefur  til kynna að  bókin sé nýkomin út í einu bindi. Orðabókin kom út í einu bindi  árið 2007.  Þarna er verið að blekkja  almenning. Það er ekki beinlínis verið að segja ósatt ,en gefið er í skyn , að orðabókin sé nýkomin út í einu bindi. Það er rangt. Þetta er ekki heiðarlegt. Íslensk  orðabók er svo svo góð bók, að ekki þarf að beita blekkingum, þegar hún er auglýst.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>