«

»

Molar um málfar og miðla 292

Makalaust er, að Ólafur Ragnar Grímsson,  forseti Íslands,  skuli  koma fram í  sjónvarpi BBC og hóta umheiminum Kötlugosi (19.04.2010). Orð hans hafa  þegar valdið  okkur miklu tjóni.  Athyglissýkin á  Álftanesi virðist ekki eiga sér  nein takmörk. Ólafur Ragnar hefur  alla ævi verið gjörsamlega dómgreindarlaus á  sjálfan sig. Viðtalið er skelfilegt: http://news.bbc.co.uk/2/hi/programmes/newsnight/8631343.stm?ls

Sýna Hrafni stuðning með því að flagga fánum í Laugarnesinu, segir  visir.is í fyrirsögn (19.04.2010).  Flagga fánum !  Það var og.

Úr mbl.is (19.04.2010): Hrafn er með fiska í tjörnunum, en hann segir ljóst að hann drepist við þessar aðgerðir.  Ljótt er atarna. Er þetta nú ekki fulllangt gengið, enda þótt  Hrafn telji  sig ekki þurfa að hlíta sömu reglum og  aðrir borgarar? Það er hinsvegar rétt hjá borgaryfirvöldum að láta hann ekki komast upp með að leggja undir sig Laugarnesið.

Líklega smáatriði, að sumra mati, en  rétt skal vera rétt. Úr  mbl.is (18.04.2010): …en allir stærstu flugvellir landsins, þ.m.t. Gardermoen í Osló, eru nú opnir.  Gardermoen flugvöllur er  um 50 kílómetra norður af Osló. Hann er ekki  í Osló. Þetta er því eins og að segja að Keflavíkurflugvöllur sé í Reykjavík.

 Í sjónvarpsauglýsingu  er talað um  góða afslætti. Orðið afsláttur er eintöluorð. Ekki til í  fleirtölu. Auglýsingastofur verða að hafa á að skipa fólk,i sem kann grundvallaratriði íslenskrar málfræði.

Í frétt  RÚV (18.04.2010)  var talað um eldingavirkni í gosmekkinum. Nægt hefði að tala um eldingar í gosmekkinum. Eldingavirkni er bara vitleysa.

 Það er vandaverk að gera neðanmálstexta  við myndir  í sjónvarpi.  Textar Veturliða Guðnasonar  við danska Glæpinn og textar Helgu Guðmundsdóttur  við frábæra þáttaröð  Davids Attenboroughs Lífið í Ríkissjónvarpinu eru  einstaklega vandaðir  og  vel  gerðir. Fleiri gera og vel í þessum efnum, þótt ekki sé það tíundað hér.

Eftirfarandi er af pressan.is (18.04.2010): Tvítug bresk stúlka hefur verið úrskurðuð í landlægt áfengisbann. Hún er því bönnuð á hverjum einasta bar á Bretlandseyjum, en þeir eru nokkuð margir. Hún er jafnframt bönnuð á öllum stöðum landsins þar sem áfengi er selt þannig að bannið tiltekur til allra skemmtistaða, hótela og vínbúða í landinu. Ástæðan fyrir þessu stranga banni er að stúlkan, Laura Hall, hegðar sér svo illa með áfengi.  Ekki verður annað sagt, en að þetta sé  skelfilegur og óboðlegur texti. Miðill,sem vill vera marktækur, birtir ekki svona bull.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>