Í fréttum sjónvarps ríkisins um truflanir á flugi í Evrópu vegna eldgossins (20.04.2010) sagði fréttamaður, að ferðamenn , — skeyttu skapi sínu á flugvallarstarfsfólk ! það var og!
Í fréttum Stöðvar tvö (20.04.2010) talaði fréttamaður ranglega um strandarglópa. Rétta orðið er strandaglópar, það á við um þá sem missa af skipi eða flugvél, eða eru stöðvaðir á ferð sinni og komast ekki lengra, eins og segir í íslenskri orðabók.
Í sjónvarpsauglýsingu segir: Húseigendur ! Hugsaðu til framtíðar. Einu sinni starfaði fólk á auglýsingastofu RÚV ,sem hafði tilfinningu fyrir móðurmálinu. Svo virðist ekki vera nú um stundir. Og enn kemur í ljós, að sumir auglýsingahöfundar hafa ekki vald á móðurmálinu.
Ranglega var þýtt í texta með ummælum forseta Íslands um eldgosið í Eyjafjallajökli ,að það væri forleikur að Kötlugosi. Ólafur Ragnar sagði í þessum vanhugsuðu ummælum sínum, að þetta væri a small rehearsal, smáæfing, fyrir Kötlugos. Annars var magnað að heyra íslenskan prófessor í eldfjallafræðum við Edinborgarháskóla nánast lýsa ummæli Ólafs Ragnars um Kötlugos bull og blaður í Kastljósi (20.04.2010).
Það var dálítið furðulegt að heyra hvern fjölmiðilinn af öðrum tala um að maður hefði innbyrt stíflueyði.Vissulega er þetta ekki rangt , en eðlilegra hefði verið að nota sögnina að drekka. Mbl.is gerði það og fær prik fyrir.
Í íþróttafréttum Stöðvar tvö (19.04.2010) var sagt frá hremmingum knattspyrnuliðs, sem varð að ferðast með rútu vegna þess að ekki var flogið. Íþróttafréttamaður sagði: Keyrð var tæplega þúsund kílómetra leið í tveimur leggjum Betra hefði verið að segja: Eknir voru tæplega þúsund kílómetrar í tveimur áföngum.
..og tónlistin selst í bílförmum, sagði konan ,sem kynnti efni Kastljóss ( 21.04.2010).
Gleðilegt sumar, góðir lesendur.
Skildu eftir svar