«

»

Molar um málfar og miðla 294

Í Molum var stundum vikið að fáránlegum auglýsingum Sparisjóðsins Byrs um það sem sparisjóðurinn kallaði fjárhagslega heilsu. Nú er  komið í ljós, að Sparisjóðurinn Byr var helsjúkur og   er   búinn að geispa golunni. Það er  gjörsamlega út í hött ef nota á fé skattgreiðenda til að bjarga þeim sem  settu Byr á hausinn. Þar er Molaskrifari hjartanlega sammála  Jónasi Kristjánssyni.

  Leikarar og starfsmenn Borgarleikhússins lásu  bankahrunsskýrsluna frá upphafi til enda. Heiður sé þeim. Þeir sögðu að oft  hefði verið  erfitt  að  fela  geðshræringu , þegar lesnir voru  svakalegustu kaflar skýrslunnar. Þetta er auðvelt að skilja, þegar skýrslan er lesin. Þetta leiðir  hugann , að því, að fréttaþulir  RÚV láta sumir  hverjir óhikað skoðanir sínar  i ljós á efni frétta með  raddbrigðum og áherslum í fréttalestri. Þetta er ótækt  því  hlustendum  koma  skoðanir fréttamanna ekkert við. Til dæmis  hvort tölur sem þeir lesa  séu óhæfilega háar  eða lágar. Þetta þurfa  fréttaþulir að lagfæra.

Úr fréttum Stöðvar tvö  (21.04.2010) …stóðu yfirvöld  ekki við orðin tóm, sagði fréttamaður. Enn eitt  dæmið um að  fjölmiðlafólk notar  orðatiltæki,sem það kann ekki með að fara.  Að láta ekki sitja við orðin tóm, þýðir  að láta framkvæmd  fylgja orðum (Mergur málsins, Jón G. Friðjónsson, bls.  892)

 Úr fréttum Stöðvar  tvö ( 21.04.2010): ..  að fólk á svæðinu verði rétt hjálparhönd. Leitt er til þess að  vita að  þekking á  grundvallaratriðum íslenskunnar skuli ekki vera fyrir hendi á fjölmennum fréttastofum.

Fyrirsögn í Morgunblaðinu (23.04.2010): Verð á dekkjaskiptum hefur hækkað lítið.  Eðlilegri orðaröð   væri: Verð á dekkjaskiptum hefur lítið hækkað.

Úr mbl is (21.04.2010): Kvikuflæði í eldgosinu í Eyjafjallajökli er nú stærðargráðu minna en það var fyrstu 72 klukkustundirnar, að mati vísindamanna…  Hverju erum við nær ? Hvaða   stærðargráðu er verið að  tala um? 

 Málvenja er að  segja í Vík í Mýrdal. Það gerði  fréttaþulur líka í fjögurfréttum  RÚV (21.04.2010). En í sama fréttatíma sagði fréttamaður á Vík í Mýrdal. Fréttastofan ætti að hafa við hendina  lista   forsetninga með nöfnum íslenskra þéttbýlisstaða og örnefna.

 Fréttaþulur ( 20.04.2010) Ríkissjónvarpsins las í seinni fréttum: Drunurnar út frá  eldgosinu heyrðust …  Auðvitað átti að segja:  Drunurnar frá eldgosinu heyrðust…

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>