«

»

Molar um málfar og miðla 295

Það var ótrúlegt  dómgreindarleysi, þegar dagskrárkynnir (þula) Ríkissjónvarpsins  birtist  áhorfendum með kornabarn í fanginu (25.04.2010). Hver var tilgangurinn ? Hvað á  svona bjánagangur að þýða?

Af hverju þarf Iceland Express að ávarpa íslenska sjónvarpsáhorfendur á ensku í nýjustu auglýsingu  sinni og segja: Is it true?  Þetta er ferðaskrifstofunni ekki til sóma.

Úr mbl.is (21.04.2010): Um tíma leit út fyrir að flug Flugfélags Íslands til Kulusuk félli niður í dag en af því varð ekki.   Þetta hefði að skaðlausu mátt orða betur.

 Meira um flug.Úr mbl.is (22.042010): Einhverjum alþjóðlegum vélum sem áttu að lenda í Keflavík og Reykjavík…. Með leyfi, hvað eru alþjóðlegar vélar ? Líklega er þetta íslensk aulaútgáfa  af ensku orðunum international flights.  Hér hefði mátt tala um millilandavélar. Fyrirsögn fréttarinnar var: Flogið á Akureyri og Egilsstaði. Betra hefði verið að segja: Flogið til Akureyrar og  Egilsstaða.

Banki í Bavaríu,  sagði þingmaður og fyrrverandi fréttamaður  ,,Í vikulokunum“  (RÚV  24.04.2010) Bavaria hefur ævinlega heitið  Bæjaraland á íslensku.  Rétt eins og Bohemia heitir Bæheimur. 

  Úr dv.is (22.04.2010): Upp komst um málið á síðasta ári þegar ein af dætrum hans tókst að flýja heimilið… Hér átti að standa :… þegar einni af dætrum hans tókst…

Veitingahúseigendur   og auglýsingahöfundar gera sitt til að spilla  tungunni. Í heilsíðuauglýsingum  frá veitingastað sem kallar sig GE(mynd af gaffli)SIR er lesendum boðið í  bröns, og á   færeyska turninum í Kópavogi  er auglýstur Brunch á toppnum með um það bil mannhæðarháum stöfum.  Þetta finnst Molaskrifara ógott.  Orðið  brunch er  enska,    búið til  úr orðunum  breakfast  oglunch , –  matarmikill hádegisverður yfirleitt á laugardegi eða sunnudegi  ,- bæði  morgunverður og hádegisverður. Af hverju ekki   að nota  hið góða orð   dögurður, sem  skv. íslenski orðabók þýðir, – fyrri máltíð dagsins ?

 Stiklur Ómars (endurunnar,eins og sagt var) stóðu prýðilega fyrir sínu að kveldi sumardagsins fyrsta. Fínn þáttur. En ekki var það beysið sem  kom í kjölfarið. Þrjár bandarískar framhaldsþáttaraðir. Svo afleit  dagskrárgerð að engu tali tekur. – Desperate Housewives, Army Wives… Hvaða eiginkonur  býður sjónvarp ríkisins upp á næst ? (Þetta er nú kannski  svolítið  dónaleg tvíræðni!)  Það er vandaverk að setja saman dagskrá. Þetta var eiginlega óboðlegt.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>