«

»

Molar um málfar og miðla 297

Pressan.is skrifar (25.04.2010) …. í grænni stutterma skyrtu og með grænu höfuðfati.  Hér hefði átt að standa: Með grænt höfuðfat. Það hefur reynst þeim Pressumönnum um megn að hafa þetta rétt.

Úr dv.is (27.04.2010):Bæði hafa þau Jón Ásgeir og Ingibjörg flutt lögheimili sín erlendis.  Þetta er  ambaga. Fólk  flytur ekki  eitt eða  neitt  erlendis. Það er  hinsvegar hægt að  flytja  eitt og  annað, þar með lögheimili  eða heimilisfesti  til útlanda. Menn geta verið erlendis. Menn fara ekki  erlendis. Menn fara til útlanda. Og flytja til útlanda.

Eftirfarandi blasti við augum lesenda klukkustundum saman á mbl. is (27.04.2010): „Þetta er byrjunin,“ sagði Sigurður Þór Þórhallsson, bóndi á Önundarhorni, sem í dag hefur verið að hreinsa ösku úr skurðum á bændum. Menn verða lesa það sem þeir skrifa.

 Í fréttum Stöðvar tvö ( 27.04.2010) var talað um… að lofthelgin loki í kvöld. Lofthelgin lokar ekki neinu. En  lofthelginni  var lokað.

Úr mbl.is (28.04.2010): Hann gerðist sekur um að misnota aðstöðu sína sem ráðherra til að halda fram hjá.  Þetta finnst Molaskrifara torskilið.

 Fjölmiðlar og  fréttamenn þurfa að koma sér saman um  hvort ef. flt af orðinu  prófkjör er prófkjöra eða prófkjara.  Samkvæmt  Beygingalýsingu íslensks máls  á vef Stofnunar  Árna Magnúsonar er   ef. flt. prófkjöra, ekki prófkjara eins og oft  heyrist.  Sömuleiðis verða fréttamenn að gæta samræmis í fréttum, þegar þeir tala um gosmökkinn úr Eyjafjallajökli. Það er ekki  hægt að segja í sömu  fréttinni að hann nái upp í tíu þúsund  fet  og   að hann  sé þriggja kílómetra hár.  Í alþjóðlegu  flugmáli er talað um fet. en á íslensku er talað um metra. Enda  er metrakerfið  þasð sem við  búum við.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>